Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   sun 17. maí 2020 17:58
Brynjar Ingi Erluson
Þýskaland: Lewandowski og Pavard afgreiddu Union
Robert Lewandowski skoraði 40. mark sitt á tímabilinu
Robert Lewandowski skoraði 40. mark sitt á tímabilinu
Mynd: Getty Images
Union Berlin 0 - 2 Bayern
0-1 Robert Lewandowski ('40 , víti)
0-2 Benjamin Pavard ('80 )

Bayern München fer vel af stað eftir gott frí í þýska boltanum en liðið vann 2-0 sigur á nýliðum Union Berlín í 26. umferð deildarinnar í dag.

Urs Fischer, þjálfari Union, var ekki á tréverkinu í dag vegna persónulegra ástæðna en tengdafaðir hans lést á dögunum.

Robert Lewandowski átti fyrsta færið en það kom á 4. mínútu. Hann átti skot sem fór af leikmanni Union og yfir markið. Heimamenn áttu nokkrar fínar sóknir og litu vel út á fyrstu mínútunum.

Á 17. mínútu kom Thomas Müller boltanum í netið. Serge Gnabry skallaði boltann þá á Müller sem skoraði. Müller var rangstæður en ef hann hefði sleppt því að koma við boltann hefði skalli Gnabry sennilega endað í netinu.

Bayern fékk vítaspyrnu á 39. mínútu en Nevan Subotic braut þá á Leon Goretzka innan teigs. Lewandowski steig á punktinn og skoraði örugglega. 40. mark hans á leiktíðinni.

Gestirnir virkuðu með stjórn á leiknum í þeim síðari og voru töluvert hættulegri. Annað markið kom á 80. mínútu en Benjamin Pavard var þá á ferðinni. Joshua Kimmich tók hornspyrnu sem rataði beint á hausinn á Pavard sem skoraði.

Þriðja markið sem Pavard skorar á leiktíðinni og um leið gulltryggði sigur Bayern. Lokatölur 2-0 fyrir Bayern sem er á toppnum með 58 stig.
Athugasemdir
banner
banner