Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   lau 18. janúar 2020 15:04
Ívan Guðjón Baldursson
Mourinho ósáttur með VAR: Mjög slæmar ákvarðanir
Tottenham er aðeins búið að ná í tvö stig af síðustu tólf í ensku úrvalsdeildinni.
Tottenham er aðeins búið að ná í tvö stig af síðustu tólf í ensku úrvalsdeildinni.
Mynd: Getty Images
Tottenham gerði markalaust jafntefli á útivelli gegn Watford í dag og var Jose Mourinho sáttur með frammistöðu sinna manna að leikslokum.

Bæði lið fengu fín færi í leiknum en Troy Deeney klúðraði vítaspyrnu fyrir heimamenn á 70. mínútu. Í uppbótartíma bjargaði Ignacio Pussetto, nýr leikmaður Watford, á línu eftir marktilraun Erik Lamela. Marklínutækni var notuð enda munaði afar litlu að boltinn hefði farið yfir línuna.

„Ég veit að það munaði bara nokkrum millimetrum en marklínutæknin virkar vel. Hún gerir ekki mistök eins og VAR og við verðum að samþykkja að þetta var ekki mark," sagði Mourinho að leikslokum.

„Við spiluðum þennan leik mjög vel þrátt fyrir að vera án sóknarmanns. Við stjórnuðum leiknum og komumst í góð færi en náðum ekki að skora. Mér finnast úrslitin vera ósanngjörn."

Mourinho er ósáttur með myndbandsdómgæsluna í leiknum. Hann vildi fá rauð spjöld á leikmenn Watford eftir átök á vellinum og þá vildi hann einnig vítaspyrnu.

„Það var ekki einu sinni skoðað atvikið sem átti að vera vítaspyrna en svo var annað atvik skoðað gaumgæfilega sem var augljóslega ekki vítaspyrna.
VAR klikkaði líka þegar rauðu spjöldin áttu að fara á loft. Þetta voru mjög slæmar ákvarðanir."

Athugasemdir
banner
banner
banner