Barca vill Dani Olmo - Crystal Palace að bjóða í Smith Rowe - Sergi Roberto vill enska boltann - Newcastle spyrst fyrir um Madueke
   þri 18. júní 2024 14:56
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Heimild: Dr. Football 
Mikil óvissa hjá Eupen og Gulli hugsar sér til hreyfings - „Mjög skrítið allt saman"
Guðlaugur Victor Pálsson.
Guðlaugur Victor Pálsson.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Alfreð Finnbogason og Guðlaugur Victor voru saman hjá Eupen.
Alfreð Finnbogason og Guðlaugur Victor voru saman hjá Eupen.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Missti af síðustu landsleikjum vegna meiðsla.
Missti af síðustu landsleikjum vegna meiðsla.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Guðlaugur Victor Pálsson er samningsbundinn belgíska liðinu Eupen. Hann skrifaði undir þriggja ára samning við félagið síðasta sumar, kom frá DC United í Bandaríkjunum. Landsliðsmaðurinn var lykilmaður í liðinu en Eupen átti mjög lélegt tímabil og féll úr belgísku úrvalsdeildinni.

Gulli ræddi gengi liðsins og stöðu sína í Dr. Football í dag.

„Það gekk mjög illa hjá liðinu, fall. Maður sá mjög snemma að það væri að stefna í það, því miður. Rosalega skrítinn fótboltaklúbbur, mjög illa rekinn klúbbur. Það eru miklir möguleikar þarna, við trúðum á þetta verkefni þegar við fórum þarna. Eigendurnir eru frá Katar og það er talsvert fjármagn þarna. Þeir réðu Florian Kohfeldt sem þjálfara," sagði Guðlaugur Victor. Kohfeldt er fyrrum þjálfari Wolfsburg og Werder Bremen. Hann hætti sem þjálfari liðsins í mars.

„Mig langaði að koma aftur til Evrópu eftir að fósturpabbi minn dó, vera nær systur minni og koma aftur á meginlandið. Ég lét umboðsmennina vita af því og þá kom þessi möguleiki upp. Þetta var verkefni sem Eupen var með Flo (þjálfaranum) og það vantaði reynslumikinn leikmann í vörnina. Þeir buðu mér þannig samning að ég gat ekki sagt nei við því. Þetta er pínulítið félag, búa 19 þúsund manns þarna, ekkert "sexy" við þetta. En verkefnið hljómaði þannig að ég var til í þetta. Þeir fengu aðra leikmenn með reynslu úr Bundesligunni. Þetta tikkaði í öll boxin."

Hjörvar Hafliðason spurði hvort Guðlaugur Victor hefði verið að fá greitt frá félaginu.

„Við fengum greitt, en eftir að við féllum fengum við greitt tveimur vikum of seint. Peningurinn er kominn inn. Af því að við féllum eru Katararnir eitthvað að mixa. Það er enginn þjálfari, enginn fitnessþjálfari, enginn sjúkraþjálfari og fyrsta æfing er eftir tvær vikur. Menn vita ekki hvaða fjármagn Katararnir ætla að láta í félagið þannig það er ekki hægt að ráða neitt inn."

„Ég er sjálfur meiddur og er búinn að vera það í sex vikur. Ég veit ekkert hvort ég sé að fara út í endurhæfingu eða hvað, maður veit ekki neitt. Þetta er mjög, mjög skrítið allt saman."

„Já, ég er að hugsa mér til hreyfings. En eins og fótbolti virkar, sérstaklega þegar maður er 33 ára, þá er maður ekkert að tína einhvern samning upp af götunni. Ég á tvö ár eftir og svo er spurning hvort ég megi fara frítt eða hvort það þyrfti að greiða fyrir mig. Það getur spilað stóra rullu í þessu, það eru ekki mörg félög að fara borga fyrir mig. Langar mig að spila á hærra 'leveli' en í 2. deild í Belgíu? Já, allan daginn. En maður þarf að pæla í hlutunum, ég er á frábærum samningi, er 33 ára. Maður þarf að vega og meta. Fjárhagslega hliðin er mjög mikilvæg, en mig langar líka til þess að spila á háu getustigi."

„Ég missti af einum leik, missti af síðasta leiknum á móti Freysa þegar hann ákvað að fella okkur."


Guðlaugur Victor var spurður hvort hann væri að vinna í því að vinna sér að nýju liði.

„Ég er alltaf að reyna vinna í þessu núi sem fólk talar um. Núna er ég bara í endurhæfingu, er að vinna í því að koma mér í gang, á ekki mikið eftir af endurhæfingunni. Ég var á vellinum að hlaupa í dag. Verður maður ekki að setja þetta í hendurnar á einhverjum æðri mætti? Það sem gerist, gerist," sagði Guðlaugur Victor að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner