Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   sun 18. ágúst 2019 11:00
Ívan Guðjón Baldursson
Van Persie: Arsenal bauð mér aldrei samning
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Hollenski sóknarmaðurinn Robin van Persie skipti úr Arsenal yfir til Manchester United sumarið 2012. Það vakti litla hrifningu stuðningsmanna Arsenal sem litu á félagaskiptin sem svik, enda hafði Van Persie verið meðal bestu leikmanna liðsins undanfarin ár.

Van Persie starfar sem knattspyrnusérfræðingur á BT Sport í dag og tjáði sig um félagaskiptin í beinni útsendingu í gær.

„Þið getið litið á þetta sem hjónaband. Ég var giftur eiginkonu minni, Arsenal, í átta ár og eftir þessi átta ár var eiginkonan orðin smá þreytt á mér," sagði Van Persie.

„Þetta er staðreynd. Ég fann að félagið vildi mig ekki, þeir buðu mér ekki nýjan samning. Staðreyndin er sú að Arsenal bauð mér aldrei nýjan samning, og hvað gat ég þá gert?

„Ég var metnaðarfullur, ég vildi vinna úrvalsdeildina, svo ég fór að líta í kringum mig og að lokum voru þrír möguleikar fyrir mig. Ég gat farið til eins félags utan Englands, til Man City eða Man Utd."


Þessi ummæli stangast á við fréttaflutning frá skiptunum og ummæli hans frá árinu 2012.

„Ég hef hugsað lengi um þetta og hef ákveðið að framlengja ekki samninginn," skrifaði Van Persie á vefsíðu sína sumarið 2012.

Van Persie átti aðeins eitt ár eftir af samningi sínum við Arsenal þegar hann tilkynnti þetta. Arsenal svaraði með yfirlýsingu.

„Við verðum að virða ákvörðun Robin að endurnýja ekki samninginn. Hann á eitt ár eftir af samningnum og við erum sannfærðir um að hann muni gegna skyldum sínum gagnvart félaginu," sagði í yfirlýsingunni.

„Við erum að skipuleggja næsta tímabil af miklum metnaði."

Í kjölfarið var Van Persie seldur til Man Utd fyrir 24 milljónir punda og vann Englandsmeistaratitilinn á sínu fyrsta tímabili en missti svo sæti sitt í liðinu og fór yfir í tyrkneska boltann.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner