þri 18. nóvember 2025 11:10
Kári Snorrason
Nýi þjálfarinn um ólgu og niðurskurð: Gustar alltaf innan allra félaga
Kvenaboltinn
Anton Ingi Rúnarsson.
Anton Ingi Rúnarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Anton Ingi Rúnarsson var nýverið ráðinn þjálfari kvennaliðs Fram en hann tekur við af Óskari Smára Haraldssyni, sem samdi við Stjörnuna. Ráðningin kemur í kjölfar töluverðra umbrota innan kvennadeildarinnar, þar sem bæði Óskar Smári og meistaraflokksráðið létu af störfum.

Í samtali við Fótbolta.net segir Anton að alltaf verði einhver ólga innan félaga, en hann sé sannfærður um að hægt sé að festa liðið í efstu deild þrátt fyrir niðurskurð.


„Það gustar alltaf innan allra félaga, það er bara mismikið en lægir með tímanum og það er búið að gera það núna. Ég byrja núna á núllpúnkti og vinn með stjórn, því kvennaráði sem er til staðar og stelpunum.“ 

„Mér líst mjög vel á hópinn. Ég þekki liðið vel og fylgdist með liðinu í sumar. Þær stóðu sig virkilega vel og héldu sér í deildinni í sumar, það er eitthvað sem maður getur byggt ofan á. Ég er að taka við virkilega góðu búi af Óskari. Hann hefur gert virkilega vel síðustu fjögur ár og hefur komið þeim upp um tvær deildir á þessum fjórum árum. Mér fannst þær aldrei vera í neinni fallhættu á þessu tímabili, það er virkilega sterkt og við reynum að festa klúbbinn sem Bestu deildar félag.“ 

Mikið hefur verið rætt um niðurskurð hjá kvennadeild Fram, er raunhæft að festa liðið í Bestu deildinni þrátt fyrir það?

„Já, ég tel það. Það sem ég ræði við mitt fólk er að vera með ákveðinn fjölda erlendra leikmanna og að reyna sækja íslenskar stelpur, sem ég er að reyna gera. Ég hef átt mörg góð samtöl við frábæra leikmenn, það er eitthvað sem er í vinnslu núna á meðan við erum að keyra þetta af stað.“ 

„Ég spila minn bolta, mín kerfi og ég vil taka þennan hóp og setja inn í mínar pælingar og vinna út frá því. Ég vil spila skemmtilegan bolta. Það hefur verið talað um að það sé ekki mikið áhorf og það mætti fjölga áhorfendum. Það kemur með því að spila góðan bolta og það sé stemning. Það er stemning í hverfinu uppi í Úlfarsárdal."



29 ára þjálfari í efstu deild - „Frábært að koma inn í svona stórt félag"
Athugasemdir
banner