Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   þri 19. maí 2020 21:19
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Þetta er ekki einhver Skaginn fortíðar"
Talið barst að Skagamönnum í útvarpsþættinum.
Talið barst að Skagamönnum í útvarpsþættinum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Tryggvi Hrafn Haraldsson.
Tryggvi Hrafn Haraldsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
ÍA hafnaði í tíunda sæti Pepsi Max-deildarinnar á síðustu leiktíð.
ÍA hafnaði í tíunda sæti Pepsi Max-deildarinnar á síðustu leiktíð.
Mynd: Fótbolti.net - Ingunn Hallgrímsdóttir
Það var farið yfir sögulínur fyrir tímabilið sem framundan er í Pepsi Max-deild karla í útvarpsþættinum Fótbolta.net á X-inu 977 síðasta laugardag. Elvar Geir Magnússon, Tómas Þór Þórðarson og Ingólfur Sigurðsson tóku fyrir nokkur umræðuefni í þættinum.

Eitt af því sneri að ÍA. „Einu sinni var allt í rugli upp á Skaga, í kringum aldamótin, þá var allt í bulli. Enginn fékk borgað og allt var í volli. Ungir strákar á uppleið, Blaz Roca og Unnar Freyr. Óli Þórðar fór bara á rútuna, hann þvoði þvottinn og þeir mynduðu geggjaða stemingu. Þeir fóru til Eyja og unnu, urðu Íslandsmeistarar 2001, svolítið þegar allt var í bál og brannd," sagði Tómas Þór þegar hann kynnti inn sögulínuna.

Það hefur verið mikil umræða um ÍA í vetur. Mikill taprekstur var hjá knattspyrnudeild ÍA og í síðasta mánuði var sagt mikið ósætti í leikmannahópnum eftir að ákvörðun var tekin um launalækkanir án samráðs við leikmanna. Umtalið hefur ekki verið sérlega jákvætt, en geta Skagamenn þjappað sér saman fyrir sumarið?

„Fyrir fram er kannski ekki margt sem bendir til þess, en eins og ég hef sagt áður þá hefur Jói Kalli alltaf náð góðum árangri sem þjálfari," sagði Ingólfur. „Hann er að taka inn mikið af ungum strákum og hópurinn er skipaður að mestu strákum úr 2. flokki. Ef hann getur myndað stemningu og náð til þessara gaura, sem ég efast ekki um, þá geta þeir klárlega orðið spenanndi og flott lið."

„Þeir þyrftu kannski bara að velja sína leiki rétt, ekki bara að vinna fyrstu sjö leikina og söguna meira eða hvernig það var (í fyrra)."

Tómas sagði þá: „Það sem ég sé að þessu Skagaliði núna er það er að það er fullt af ágætis fótboltamönnum þarna, en ég á enn eftir að sjá karakter í þessu liði. Mér finnst þetta ekki einhver Skaginn fortíðar. Ef þú horfir á þetta 2001 lið þá eru þarna Gulli Jóns, Reynir Leósson, Baldur Aðalsteinsson, Hjörtur Júlíus Hjartarson, Kári Steinn Reynisson, Pálmi Haraldsson. Þeir voru mátulega ungir sumir hverjir, en engir krakkar eins og þetta Skagalið, en þetta voru, urðu og eru rosalegir karakterar í íslenskum fótbolta."

„Tryggvi Hrafn er örugglega betri en þeir allir og Stefán Teitur getur verið það líka, en þetta er ekki það sama. Tryggvi er besti leikmaðurinn í liðinu en er hann eitthvað 'leading by example' þannig?"

„Hann virkar ekki þannig á mann, nema að hann hafi verið að horfa á Last Dance upp á síðkastið og sé að tileinka sér Michael Jordan," sagði Ingólfur sem kallar eftir því að ungu leikmennirnir taki ábyrgð í liðinu.

„Ég vil sjá meira því við vitum öll hvað þessir gaurar geta, við sáum það í fyrstu fjórum eða fimm umferðunum í fyrra. Ég borga mig inn til að sjá Tryggva, Stefán og Bjarka. Ég borga pening til að horfa á þá spila fótbolta, en ég myndi ekki borga þeim til að halda peppfund fyrir mig," sagði Tómas.

Leikmenn á förum?
Sögur hafa á kreiki um að leikmenn eins og Hörður Ingi Gunnarsso og Tryggvi Hrafn Haraldsson, tveir af bestu ungu leikmönnunum í liði ÍA, séu á förum. Hefur til að mynda Hörður verið orðaður við sitt uppeldisfélag, FH.

Geir Þorsteinsson, framkvæmdastjóri ÍA, hefur ítrekað neitað því að leikmenn séu á förum og Tómas Þór segir enga ástæðu fyrir ÍA að fara að selja leikmenn núna.

„Þeir eru búnir að hafna tilboðum í Tryggva Hrafn og Hödda löpp. Ég veit ekki af hverju þeir ættu að selja þá þegar 28 dagar eru í mót þegar þeir seldu þá ekki þegar 70 dagar voru í mót," sagði Tómas.

„Segjum að KR hafi boðið fimm milljónir í Tryggva sem er að renna út á samningi held ég. Hann getur farið frítt. Af hverju ætti Skaginn að fara að selja Tryggva Hrafn fyrir nokkrar milljónir sem eru ekki einu sinni dropi í hafið fyrir þetta ævintýralega bókhaldsklúður þeirra. Fimm milljónir eru ekki að fara að bjarga þeim neitt, en ÍA gæti fallið ef Tryggvi fer. Tekjugrundvöllurinn er horfinn í Covid, en hann fer út á hagsauga ef þeir fara niður í 1. deild. Nokkrar skitnar milljónir fyrir bestu leikmennina þeirra, ég skil þá vel að selja þá ekki."

Umræðuna má hlusta á í heild sinni hér að neðan.
Boltahringborð - Sögulínur sumarsins í Pepsi Max
Athugasemdir
banner