Marc Andre Ter Stegen, markvörður Barcelona, segir að samskiptaörðugleikar hafi orðið til þess að Eric Garcia hafi verið rekinn af velli þegar Barcelona tapaði gegn Monaco í Meistaradeildinni í kvöld.
Eric Garcia var rekinn af velli eftir tíu mínútna leik þegar hann braut á Takumi Minamino sem var að sleppa einn í gegn. Ter Stegen ætlaði að senda boltann á Garciia en hann var ekki með á nótunum og Minamino komst í boltann.
„Við skildum ekki hvorn annan í þessu atviki, ég vorkenni Eric, þetta var sárt fyrir hann og þetta varð til þess að við vorum manni færri í 80 mínútur. Það gerðist eitthvað sem á ekki að koma fyrir neinn. Svona hlutir gerast í fótbolta," sagði Ter Stegen.
Þetta var fyrsta tap Barcelona á tímabilinu undir stjórn Hansi Flick en liðið er með fullt hús stiga í spænsku deildinni eftir fimm umferðir. Liðið heimsækir Villarreal um helgina.