Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
banner
   lau 20. febrúar 2021 18:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Bröndby sagt hafa tekið ákvörðun um að framlengja ekki við Hjört
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Samkvæmt danska fjölmiðlinum Ekstrabladet þá verður samningur varnarmannsins Hjörts Hermannssonar hjá Bröndby ekki framlengdur í sumar.

Samningur Hjartar við Bröndby rennur út í sumar og segir danski fjölmiðillinn að Hjörtur og þrír aðrir leikmenn séu á förum frá félaginu.

Carsten V. Jensen, yfirmaður knattspyrnumála hjá Bröndby, er sagður vilja losna við Hjört og aðra leikmenn þar sem hann er að reyna að yngja upp liðið og minnka kostnað. Það sé ekki hægt að ábyrgjast það að Hjörtur fái mikinn spiltíma á næstu tímabilum.

Hjörtur er 26 ára gamall miðvörður sem getur einnig leikið í hægri bakverði. Hann á 18 A-landsleiki að baki fyrir Ísland en hann hefur nokkuð verið orðaður við félög í Póllandi. Í nóvember síðastliðnum var sagt frá því að Legia Varsjá hefði mikinn áhuga á honum.

Hjörtur hefur á þessu tímabili spilað 11 leiki í dönsku úrvalsdeildinni fyrir Bröndby, sem situr á toppi deildarinnar.
Athugasemdir
banner
banner
banner