Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   mið 20. mars 2019 17:30
Ívan Guðjón Baldursson
Giroud ósáttur hjá Chelsea: Ekki lengur barátta um sæti
Mynd: Getty Images
Franski sóknarmaðurinn Olivier Giroud virðist sjá eftir félagaskiptum sínum til Chelsea en hann verður samningslaus í sumar.

Giroud er 32 ára og hefur aðeins byrjað sex leiki í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu. Hann hefur aftur á móti fengið að spila í Evrópudeildinni og skoraði þrennu í síðasta leik, á útivelli gegn Dynamo Kiev.

Hann fékk lítinn spiltíma fyrir áramót þegar Maurizio Sarri valdi oft að nota frekar Eden Hazard eða Alvaro Morata sem fremsta mann. Eftir áramót versnaði staðan enn frekar eftir að Gonzalo Higuain var fenginn úr ítalska boltanum.

„Auðvitað er þetta pirrandi. Það er ekki lengur barátta um byrjunarliðssæti hjá okkur í sókninni, ég veit að ég fæ ekki tækifæri nema bara í Evrópudeildinni sama hvað ég reyni," sagði Giroud í útvarpsviðtali við RTL.

„Framtíð mín verður ákveðin í sumar. Ég er tilbúinn til að ganga til liðs við félag í lægri gæðaflokki ef ég fæ meiri spiltíma. Mér finnst líklegt að ég endi ferilinn í Frakklandi."

Giroud vann HM með Frökkum síðasta sumar og enska bikarinn með Chelsea í fyrra. Hann er í landsliðshópi Frakka sem mætir Moldavíu á föstudaginn og Íslandi á mánudaginn.
Athugasemdir
banner
banner
banner