Arsenal endurnýjar áhuga á Luiz - Man Utd reynir við Todibo - Tottenham vill Sudakov
   þri 20. júlí 2021 16:07
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Matti ræðir um Rosenborg: Einn af mínum bestu vinum
Matthías í leik með FH.
Matthías í leik með FH.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Matthías og Hólmar Örn.
Matthías og Hólmar Örn.
Mynd: Instagram - Matthías Vilhjálmsson
Matti var hjá Rosenborg frá 2014 til 2019.
Matti var hjá Rosenborg frá 2014 til 2019.
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
Hvað gerir FH á fimmtudaginn?
Hvað gerir FH á fimmtudaginn?
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
FH þarf að eiga toppleiki gegn Rosenborg.
FH þarf að eiga toppleiki gegn Rosenborg.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
„Mér líst mjög vel á þetta. Þetta er skemmtilegt fyrir okkur í FH," segir Matthías Vilhjálmsson, fyrirliði FH, í samtali við Fótbolta.net.

Á fimmtudag mætir FH norska liðinu Rosenborg í forkeppni Sambandsdeildarinnar. Fyrri leikurinn er á Kaplakrikavelli. Matthías þekkir lið Rosenborg vel en hann spilaði þar frá 2014 til 2019 við góðan orðstír.

„Ég þekki mjög vel til í Rosenborg. Við vitum að þetta verður mjög erfitt verkefni. Rosenborg er eitt af stærstu félögum Skandinavíu og þetta er fyrst og fremst rosalega skemmtilegt verkefni fyrir okkur. Við höfum engu að tapa. Við erum mjög spenntir fyrir þessu," segir Matthías.

Þvílíkt flott félag
Rosenborg er gríðarlega flott félag að sögn Matthíasar þar sem alltaf eru gerðar væntingar um titla.

„Rosenborg er þvílíkt flott félag, með góða stuðningsmenn og flottan leikvang. Væntingar allra innan félagsins eru að vinna titla og komast í riðlakeppni í Evrópu. Kröfurnar eru rosalega háar en það er líka ótrúlega gaman að vera í þannig umhverfi," segir Matthías.

Liðið hefur tekið breytingum síðustu árin og ekki unnið norsku úrvalsdeildina síðustu tvö árin.

„Það hafa verið gerðar breytingar síðustu ár, bæði hvað varðar þjálfara og leikmannahópinn. Það hefur tekið tíma fyrir þá að reyna að komast á þann stað sem þeir voru á. Það gekk mjög vel hjá liðinu þegar ég var þarna. Rosenborg er alltaf risa félag á Norðurlandamælikvarða. Þetta er hörkulið sem við erum að fara að mæta."

Mætir einum af sínum bestu vinum
Í liði Rosenborg er Íslendingur, varnarmaðurinn Hólmar Örn Eyjólfsson. Matthías og Hólmar voru saman hjá Rosenborg fyrir nokkrum árum og þekkjast vel.

„Hann (Hólmar Örn) er einn af mínum bestu vinum. Það verður mjög skemmtilegt að fá vonandi að spila við hann," segir Matthías en hann þekkir aðra í liði Rosenborg líka vel.

„Svo spilaði ég með nokkuð mörgum þarna í viðbót. Svo hafa þeir verið að fá leikmenn heim sem voru að spila á meginlandinu í mörg, mörg ár. (Alexander) Tettey, sem var í Norwich í langan tíma. Svo eru reyndar meiðsli hjá varafyrirliðanum sem var að spila í Herthu Berlín. Það var einn sem var að spila í Hull, AZ Alkmaar og allskonar þannig. Þeir eru með alvöru leikmenn."

Hefur Matthías einhvern tímann spilað á móti Hólmari áður?

„Ég var í Vålerenga í fyrra og Hólmar var kominn í Rosenborg. Ég spilaði reyndar ekki þann leik. Ég var í Start þegar hann var í Rosenborg. Ég hlýt að hafa mætt honum einhvern tímann en ég man svo sem ekkert eftir því. Í áramótaboltanum spila ég alltaf við hann. Það eru mikilvægustu viðureignirnar. Það er alltaf heima þegar menn eru í jólafríi."

Davíð ætlaði að blokka hann
Davíð Þór Viðarsson, aðstoðarþjálfari FH, talaði um að hann þyrfti að fara að blokka Matthías. Er Matti mikið búinn að hjálpa þjálfurunum í undirbúningnum?

„Ég hætti eftir að hann sagðist ætla að blokka mig," sagði Matthías léttur. „Ekki bara þeir, leikmennirnir eru líka forvitnir og langar að vita hverjum þeir eru að fara að mæta. Ég segi allt sem ég veit. Allir í kringum FH eru mjög spenntir fyrir þessu verkefni. Við - íslensk félög - lítum upp til svona félaga."

Hann segir að það sé mikill munur á Rosenborg og FH. „Það er gífurlegur munur í umgjörð. Rosenborg er með mikið stærra fjármagn. Þeir eru með leikvang sem rúmar 20 þúsund manns. Þú ert líka með Þrándheim - borgina sem Rosenborg er í - þar sem eru fimm, sex minni lið og svo halda allir með Rosenborg, 200 þúsund manns. Á Íslandi eru 10-15 lið á höfuðborgarsvæðinu þar sem stuðningsmenn skiptast niður. Þetta er risa batterí og félagið var reglulega í riðlakeppni Meistaradeildarinnar fyrir 10-15 árum."

Þurfum að fara út og vera hugrakkir
Rosenborg er í fjórða sæti norsku úrvalsdeildarinnar og FH í sjöunda sæti Pepsi Max-deildarinnar.

„Þetta er örugglega erfiðasti andstæðingurinn sem við höfum mætt í ár. Þeim hefur ekki gengið eins vel og þeir hefðu viljað í deildinni, en við höfum við ekki heldur verið að spila frábærlega í sumar. Það er alltaf möguleiki í fótbolta. Það er það góða við þetta. Við förum inn í þennan með engu að tapa. Markmið okkar er að eiga möguleika í seinni leiknum. Við erum að vona að þetta verði ótrúlega góð reynsla fyrir okkar leikmenn, okkar félag, að við íslensku liðin sjáum hluti sem hjálpa okkur að bæta íslenska knattspyrnu. Það er það sem við erum að leitast eftir," segir Matthías.

Miði er möguleiki, en hvað þarf FH að gera til þess að fara áfram í þessu einvígi?

„Þegar stórt er spurt. Við þurfum að eiga algjöra toppleiki í báðum leikjunum. Rosenborg þarf líka að hitta á slæman dag. Með góðu skipulagi... við getum líkt þessu við þegar íslenska landsliðið hefur verið að standa sig vel, þá hefur skipulagið verið fáránlega gott með gæðum inn á milli - föst leikatriði og allt þetta. Við þurfum að fara þarna út og vera hugrakkir líka. Við græðum ekkert á því að hanga í vörn í 90 mínúturnar, því þá munu glufurnar opnast þegar líður á leikinn. Skipulagið er þvílíkt mikilvægt í þessu. Þegar þú mætir Rosenborg og svona góðum liðum, þá verður þér refsað grimmilega. Valsmenn mættu Dinamo Zagreb og spiluðu tvo góða leiki, en þú sérð gæðin hjá hinum liðunum. Það má ekkert út af bregða."

Ekki sáttur með tímabilið
Matthías sneri aftur til Íslands fyrir tímabilið eftir tíu ár í atvinnumennsku. Hvernig lítur hann á þetta tímabil?

„Mér fannst ég byrja vel og spila mjög vel í byrjun. Ef einhver hjá FH er sáttur við tímabilið þá væri ég mjög hissa. Mér finnst ég persónulega geta spilað betur. Ég er kominn aðeins neðar á völlinn að hjálpa til á miðjunni. Mér er sama á meðan við erum byrjaðir að vinna leiki. Maður getur alltaf bætt sig," segir Matthías en leikur FH og Rosenborg er næstkomandi fimmtudag. Allir á völlinn!


Athugasemdir
banner
banner
banner