„Ég vissi að það yrði erfitt að kveðja Þór/KA en það varð miklu erfiðara en ég átti von á. Það er mitt lið og maður nær rosalega sterkri tengingu við leikmenn og fólkið í kring. Það er algjörlega frábært fólk þarna og leikmenn sem var mjög erfitt að kveðja,“ sagði Jóhann Kristinn Gunnarsson nýráðinn þjálfari Þróttar í Bestu deild kvenna.
Jóhann tekur við Þrótti af Ólafi Kristjánssyni sem hætti til að verða aðstoðarmaður Þorsteins Halldórssonar hjá kvennalandsliðinu. Fótbolti.net hitti á Jóhann í gærdag og ræddi við hann um nýja starfið.
Jákvæðni í Laugardal
„Þegar Óli (Kristjáns) hætti þá var haft samband og við ræddum saman í framhaldinu á því. Ég þurfti aðeins að vega og meta hlutina, þar sem ég var í góðu starfi og umhverfi hjá frábærum hópi í Þór/KA. Það var erfitt að taka þessa ákvörðun, en mér fannst þetta rétt fyrir liðið og stelpurnar þar að fá inn nýja rödd. Mér leist mjög vel á aðstæður, leikmannahópinn og allt í kringum þetta hjá Þrótti, þannig á endanum varð þetta niðurstaðan.“
„Mér finnst tónninn í fólki hérna vera góður, það er hugur í mannskapnum. Í leikmannahópnum og fólki sem stendur í þessu, það er eitthvað jákvætt í gangi eins og árangurinn í sumar sýndi fram á. Þær voru ekki langt frá þessu. Það eru góðir hlutir að gerast hérna og vonandi get ég hjálpað til við að gera gott enn betra.“
Engin bylting væntanleg
„Ég er ekki að koma með neina byltingu hingað inn, mér fannst gott að halda í starfsfólk sem var hérna á síðasta tímabili. Síðan fengum við Orra Sigurjónsson sem fitness þjálfara, sem er mjög sterkt. Ég vil halda leikmannahópnum eins óbreyttum og hægt er, þá kannski með sterkum viðbótum við þær sem fyrir eru.
Mér finnst mikilvægt að orkan fari í það næstu daga að kynnast þeim. Á næstu dögum förum við svo að sjá hvar landið liggur í leikmannamálum, ég vil skrúfa upp það sem fyrir er og bæta upp þessa litlu hluti sem hægt er að bæta til að komast yfir þennan þröskuld og komast enn lengra,“ sagði Jóhann að lokum, en viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.






















