mið 22. mars 2023 10:27
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Hafa sömu áhyggjur af stöðu mála og Conte
Pochettino er orðaður við endurkomu.
Pochettino er orðaður við endurkomu.
Mynd: Getty Images
Líklegt þykir að Antonio Conte muni fá sparkið eftir eldræðu sem hann tók eftir 3-3 jafntefli Tottenham gegn Southampton í ensku úrvalsdeildinni.

Conte gagnrýndi þar leikmenn Tottenham harðlega og sagði að hjá Tottenham væru menn vanir því að klúðra málunum og spila ekki um neitt mikilvægt. Hann gagnrýndi metnaðinn hjá félaginu og gaf í skyn að það hefði skapast hefð fyrir vonbrigðum hjá félaginu.

Það þykir líklegt að Conte muni fá sparkið eftir þessa ræðu en leikmenn innan hópsins eru sagðir sárir út í hann. Sky Sports greinir frá því að ákveðnir leikmenn séu búnir að setja sig í samband við Mauricio Pochettino, fyrrum stjóra liðsins, með það í huga að fá hann aftur. Argentínumaðurinn er sagður opinn fyrir því.

Telegraph segir hins vegar frá því að margir stjórar sem Tottenham gæti leitað til í framhaldinu hafi sömu áhyggjur af stöðunni hjá félaginu og Conte, og það gæti því reynst erfitt fyrir félagið að fá stjóra í hæsta klassa.

„Það er tilfinning utan félagsins að Conte hafi náð stórkostlegum árangri á sínu fyrsta tímabili hjá Spurs með því að tryggja liðinu sæti í Meistaradeildinni og að þetta tímabil endurspegli betur getu liðsins og metnað félagsins," segir í grein Telegraph.

Það hafa líka spurningar vaknað um framtíð Fabio Paratici hjá félaginu, en hann gæti verið að fara í langt bann.

Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist en í grein Telegraph eru fjölmargir stjórar nefndir: Luis Enrique, Thomas Tuchel og Mauricio Pochettino sem eru allir atvinnulausir og svo eru það Ange Postecoglou hjá Celtic, Oliver Glasner hjá Frankfurt, Roberto De Zerbi hjá Brighton og Thomas Frank hjá Brentford.

Það bendir þó allt til þess að Ryan Mason, sem er í þjálfarateymi Conte, muni stýra liðinu út tímabilið.

Sjá einnig:
„Ég skil hann mjög vel, ég var ekki ósammála einu einasta orði"
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner