Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   fim 23. apríl 2020 14:00
Magnús Már Einarsson
Tímavélin: Sigur Íslands gegn Spánverjum
Tímavél birtist upphaflega árið 2011
Greinin sem Sigmundur Ó. Steinarsson skrifaði um leikinn í Morgunblaðið.
Greinin sem Sigmundur Ó. Steinarsson skrifaði um leikinn í Morgunblaðið.
Mynd: Timarit.is
Mynd úr Morgunblaðinu þar sem Þorvaldur Örlygsson sést skora fyrra mark Íslands.
Mynd úr Morgunblaðinu þar sem Þorvaldur Örlygsson sést skora fyrra mark Íslands.
Mynd: Timarit.is
Eyjólfur skoraði annað markið.
Eyjólfur skoraði annað markið.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í tímavélinni í dag er farið aftur til ársins 1991 þegar Íslendingar unnu frækinn sigur á Spánverjum.



Íslendingar hafa leikið níu leiki gegn Spánverjum í gegnum tíðina og unnið einn sigur. Sá sigur kom á Laugardalsvelli þann 25. september árið 1991 og vakti þónokkra athygli. Ásgeir heitinn Elíasson var þá nýtekinn við liðinu af Bo Johansson en Íslendingar voru einungis með 2 stig (1 sigur) þegar tveir leikir voru eftir í undankeppni EM.

Ásgeir gerði róttækar breytingar fyrir leikinn gegn Spánverjum en fyrirliðinn Atli Eðvaldsson var meðal annars ekki í leikmannahópnum. Þá var Ásgeir einnig með fimm leikmenn úr sínu gamla liði Fram í byrjunarliðinu. Ásgeir vildi spila boltanum léttleikandi með jörðinni í stað þess að nota langar sendingar og það lukkaðist vel gegn Spánverjum eins og lesa má í umfjöllun Sigmundar Ó. Steinarssonar í Morgunblaðinu.

„GLÆSILEG og eftirminnileg kveðjustund fór fram á Laugardalsvellinum ígærkvöldi. Þar var gamla kraftaknattspyrnan kvödd með glæsibrag. Leikurinn var gífurlegur sigur fyrir íslenska knattspyrnu og Ásgeir Elíasson, þjálfarann sem tók enn einu sinni áhættu og stóð upp sem sigurvegari. Yfirvegaður að vanda, eins og klókur pókerspilari, sat hann við spilaborðið; með tromp upp í erminni; léttleikandi, yfirvegaða og sókndjarfa knattspyrnu, sem skilaði svo sannarlega árangri. ísland vann sinn glæsilegastan sigur á knattspyrnuvellinum og það, 2:0, gegn Spánverjum." (Sigmundur Ó. Steinarsson, 1991. „Kveðjustund.“ Morgunblaðið, 26. september, bls 51.)

„Af þeim landsleikjum sem maður spilaði þá er þetta einn af skemmtilegri leikjunum. Við vorum a spila á móti góðu liði en við spiluðum vel og héldum boltanum oft meira en vaninn var. Þetta var okkar besti leikur,“ sagði Þorvaldur Örlygsson núverandi þjálfari Framara þegar Fótbolti.net fékk hann til að rifja upp leikinn.

Þorvaldur skoraði sjálfur fyrra markið í 2-0 sigri en það kom á 72.mínútu leiksins. „Sigurður Jónsson sendi boltann inn í boxið og ég hafði ekki mikinn tíma til að hugsa. Ég náði að pota í boltann og náði ágætis snertingu þannig að hann rúllaði framhjá Zubizarreta í markinu. Hann reiknaði kannski ekki með að ég myndi ná til knattarins, hann var svolítið flatur á fótunum þegar ég náði snertingunni,“ segir Þorvaldur um markið sem má sjá í myndbandi hér að neðan.

Sjö mínútum síðar sendi Sigurður Grétarsson fyrir, Andoni Zubizarreta markvörður Spánverja missti boltann og Eyjólfur Sverrisson nýtti sér það með því að skora annað mark Íslendinga. Íslensku mörkin hefðu auðveldlega getað orðið fleiri en Eyjólfur og Hörður Magnússon fengu meðal annars færi undir lok leiksins gegn Spánverjum sem voru hissa á tapinu.

„Þetta voru menn sem voru vanari að vinna flesta leiki og þeir hafa sjálfsagt ekki gert ráð fyrir því að lenda í ströggli á móti litla Íslandi. Þeir náðu aldrei rythma í þetta og við vorum mjög góðir,“ segir Þorvaldur.

Sumir áhorfendur vildu að Ísand myndi tapa:
Einungis 3,839 áhorfendur urðu vitni að þessum glæsta sigri Spánverjum en mun fleiri áhorfendur höfðu mætt á hina leikina í undankeppninni á Laugardalsvelli.

„Ástæðan fyrir því að það hafði ekki gengið vel og menn bjuggust ekki við að það myndi breytast strax í fyrsta leik,“ segir Sigmundur Ó. Steinarsson þegar hann rifjar upp leikinn.

Breytingar Ásgeirs á liðinu féllu ekki vel í kramið hjá öllum og Sigmundur segir að sumir áhorfendur hafi hreinilega verið svekktur með sigurinn þar sem að þeir hafi vonast eftir að sjá íslenska liðið tapa.

„Út af þessum breytingum hjá liðinu voru ekki allir sáttir og mörgum fannst hann vera með of marga Framara. Ásgeir sagðist velja þá sem hann þekkti best og treysti í þetta ákveðna verkefni, að spila þann bolta sem hann vildi að liðið spilaði. Það voru margir í stúkunni sem vonuðust til að Ísland myndi tapa, það var alveg greinilegt,“ segir Sigmundur.

Spánverjar mættu með sterkt lið til Íslands en leikmennirnir sem spiluðu leikinn voru á mála hjá Barcelona (þrír), Real Madrid (fjórir), Atletico Madrid (þrír), Sporting Gijon (einn) og Torino (einn). Sigmundur telur að sigurinn sé einn sá besti hjá íslenska landsliðinu frá upphafi.

„Spánverjarnir voru með mjög skemmtilegt lið. Spænsku blöðin sögðu að Íslendingar hefðu leyft sér nautabanaósvífni eins og þegar nautabaninn nær að þreyta nautið með því að láta það hlaupa í kringum rauða teppið. Íslenska liðið náði góðum tökum á leiknum, sjálfstraustið var mikið og það styrktist þegar á leið.“

Lið Íslands: Birkir Kristinsson, Guðni Bergsson, Pétur Ormslev, Kristján Jónsson, Valur Valsson (Andri Marteinsson 46'), Ólafur Þórðarson, Sigurður Jónsson, Þorvaldur Örlygsson, Baldur Bjarnason (Hörður Magnússon 74'), Eyjólfur Sverrisson, Sigurður Grétarsson (F).

Lið Spánar: Zubizarreta, Abelardo, Eusebio, Manuel Sanchís Hontiyuelo, Solozábal, Míchel, Vizcaíno, Martín Vázquez (Hierro 67'), Jon Andoni Goikoetxea.

Hér að neðan má sjá myndband af mörkunum úr leiknum.




Ef lesendur hafa ábendingar um áhugavert efni í "Tímavélina" má senda tölvupóst á [email protected]

Sjá einnig:
Eldra efni í Tímavélinni
banner
banner
banner