Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mið 25. janúar 2023 14:13
Elvar Geir Magnússon
Clattenburg flýr Egyptaland - Sagður í sambandi með karlmanni
Mark Clattenburg hefur flúið Egyptaland.
Mark Clattenburg hefur flúið Egyptaland.
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mark Clattenburg, fyrrum dómari í ensku úrvalsdeildinni, hefur sagt upp hjá egypska fótboltasambandinu þar sem hann starfaði sem yfirmaður dómaramála.

Enskir fjölmiðlar fjalla um málið en það gustaði mikið um Clattenburg í Egyptalandi. Hann var sérlega óvinsæll hjá stuðningsmönnum Zamalek og forseti félagsins sagði að Clattenburg hefði sagt skilið við eiginkonu sína til að vera í sambandi með karlmanni.

Daily Mail segir að fullyrðingar forsetans séu ósannar en samkynhneigð fær litla viðurkenningu almennings í Egyptalandi og réttindi samkynhneigðra og réttindi LGBTQ+ fólks ekki mikil.

Zamalek er egypskur meistari og eitt sigursælasta lið afríska fótboltans. Clattenburg fékk holskeflu af hótunum frá stuðningsmönnum liðsins og er sagður hafa óttast um öryggi sitt.

Þá er sagt að samband hans við egypska fótboltasambandið hafi súrnað fljótt. Sambandið hafi breytt niðurröðun hans á dómurum og ekki hafi gengið eins vel hjá honum að fá inn þekkta erlenda dómara til að taka sér dómgæslu í deildinni og vonast hafði verið eftir.

Dómaramálin í Egyptalandi hafa verið í erfiðum málum í langan tíma og félagslið landsins kvartað hástöfum. Mikið er um umdeildar og furðulegar ákvarðanir dómara.

Clattenburg er 47 ára, var á sínum tíma í hópi bestu dómara heims, og starfaði síðan við dómaramál í Sádi-Arabíu, Kína og Grikklandi áður en hann var ráðinn til Egyptalands. Hann entist aðeins í fimm mánuði í Egyptalandi.

Þegar hann dæmdi sjálfur þá dæmdi hann úrslitaleiki Evrópumóts landsliða og Meistaradeildar Evrópu á sama ári 2016.
Athugasemdir
banner
banner