Trent áfram hjá Real Madrid - Arsenal á eftir Alvarez - Bayern og Liverpool berjast um Diomande
   sun 25. janúar 2026 09:00
Ívan Guðjón Baldursson
Breytingar á hópi Fiorentina (Staðfest)
Dzeko skoraði aðeins tvö mörk fyrir Fiorentina.
Dzeko skoraði aðeins tvö mörk fyrir Fiorentina.
Mynd: EPA
Fabbian skoraði gegn Fiorentina um síðustu helgi og er genginn til liðs við félagið tæpri viku síðar.
Fabbian skoraði gegn Fiorentina um síðustu helgi og er genginn til liðs við félagið tæpri viku síðar.
Mynd: EPA
Bosníski framherjinn Edin Dzeko er búinn að skipta yfir í þýska boltann á frjálsri sölu frá Fiorentina eftir misheppnaða endurkomu í Serie A.

Dzeko er 39 ára gamall og skoraði aðeins tvö mörk í átján leikjum með Fiorentina á fyrri hluta tímabils.

Núna gengur hann til liðs við Schalke sem trónir á toppi næstefstu deildar í Þýskalandi og er í harðri baráttu um að endurheimta sæti í efstu deild eftir þriggja ára fjarveru. Dzeko gerir samning við Schalke sem gildir út keppnistímabilið, en hann fagnar fertugsafmæli í mars.

Fiorentina er þá búið að lána Amir Richardson til FC Kaupmannahafnar þar sem hann verður liðsfélagi Viktors Bjarka Daðasonar. Richardson er 24 ára miðjumaður sem á ennþá þrjú og hálft ár eftir af samningi við Fiorentina en það fylgir kaupmöguleiki með lánssamningnum, sem hljóðar upp á 8 milljónir evra.

Richardson á átta landsleiki að baki fyrir Marokkó en var ekki valinn í hópinn fyrir Afríkukeppnina.

Simon Sohm var sendur á lán til Bologna með kaupmöguleika og fer Giovanni Fabbian hina leiðina á svipuðu samkomulagi. Fabbian fylgir kaupskylda ef hann spilar ákveðið marga leiki fyrir Fiorentina.

Til gamans má geta að Fabbian skoraði eina mark Bologna í 1-2 tapi gegn Fiorentina í ítölsku deildinni um síðustu helgi.

Það hefur verið mikið að frétta innan herbúða Fiorentina í janúarglugganum eftir hörmulegan fyrri hluta tímabils. Félagið er búið að krækja í Jack Harrison, Marco Brescianini og Manor Solomon á lánssamningum.
Athugasemdir
banner
banner