Mikael Anderson varð dýrasti leikmaður í sögu Djurgården þegar sænska félagið keypti hann úr röðum AGF síðasta sumar.
Félagið er búið að selja nokkra lykilmenn úr byrjunarliðinu í janúarglugganum og kallar Mikael eftir því að liðið verði styrkt á næstu vikum áður en nýtt keppnistímabil hefst í Svíþjóð.
Djurgården endaði í fimmta sæti sænsku deildarinnar í fyrra þar sem Mikael skoraði 5 mörk í 15 leikjum á seinni hluta tímabils, spilandi á miðjunni.
„Ég kom til Djurgården til að vinna titla og ég skil að það hljómar skringilega eftir að við seldum alla bestu leikmennina okkar," sagði Mikael við Expressen, en hans fyrrum félag AGF er óvænt á toppi dönsku deildarinnar sem stendur.
„Vonandi fáum við verðuga arftaka í þessar stöður og svo erum við með unga leikmenn sem gætu verið tilbúnir til að taka næsta skref.
„Við þurfum að byggja upp nýtt lið og við þurfum að gera það fljótt. Við höfum ekki sex mánuði til stefnu, við verðum að vera tilbúnir í slaginn þegar bikarinn fer af stað í febrúar."
Birmingham City krækti í August Priske úr röðum Djurgården í vikunni og á fimmtudaginn kom í ljós að Marcus Danielson gerir ekki nýjan samning við félagið.
Svíarnir fá 7 milljónir evra fyrir Priske og 6,5 milljónir fyrir Keita Kosugi sem var seldur til Eintracht Frankfurt, auk fjögurra milljóna fyrir Tobias Gulliksen sem er fluttur til Vínarborgar.
Ekki nóg með það heldur er Albin Ekdal búinn að leggja skóna á hilluna, Tokmac Nguen er farinn til Sádi-Arabíu og Rasmus Schüller er runninn út á samningi.
Djurgården er hingað til aðeins búið að krækja í sóknarmanninn Kristian Lien úr röðum Groningen og miðvörðinn Leon Hien frá Degerfors til að fylla í skörðin. Þar að auki var Jeppe Okkels keyptur síðasta haust úr röðum Preston North End.
Athugasemdir


