Andy Robertson spilaði seinni hálfleikinn í dramatískum tapleik Liverpool gegn Bournemouth í ensku úrvalsdeildinni í gær en hann hefur verið sterklega orðaður við brottför frá félaginu í janúarglugganum.
Tottenham vill kaupa hann til sín til að fylla í skarðið fyrir meiddan Ben Davies. Spurs er tilbúið til að bjóða fimm milljónir punda fyrir vinstri bakvörðinn sem er 31 árs gamall og rennur út á samningi næsta sumar.
Robertson er fyrirliði skoska landsliðsins og er óljóst hvort hann fái nýjan samning hjá Liverpool.
Hann er varaskeifa fyrir Milos Kerkez og gæti Liverpool kallað Kostas Tsimikas til baka úr láni hjá AS Roma til að fylla í skarðið.
Arne Slot þjálfari Liverpool vill þó ekki missa bakvörðinn sinn.
„Ég held að ég þurfi á öllum leikmönnum hópsins að halda," sagði Slot eftir tapið gegn Bournemouth.
„Við þurftum á Robbo að halda í seinni hálfleik, það var mikilvægt að gefa Milos (Kerkez) hvíld. Það hefði verið hættulegt að láta hann spila í 90 mínútur gegn mjög ákáfu Bournemouth liði, við viljum ekki missa hann í meiðsli næstu vikurnar eða mánuðina. Við megum ekki við því.
„Það er nóg af leikjum framundan fyrir alla og ég þarf að passa að missa ekki fleiri leikmenn í meiðsli. Það síðasta sem við þurfum eru önnur meiðsli."
Slot framkvæmdi skiptinguna í leikhlé og var hann spurður út í tímasetninguna.
„Ég var búinn að nota eina skiptingu í fyrri hálfleik og ákvað því að nýta hálfleikshléð til að framkvæma aðra skiptingu. Þannig sparaði ég mér eitt skipti og átti ennþá tvö skipti eftir til að gera skiptingar í seinni hálfleik.
„Ég gerði þessa skiptingu bara til að hlífa Milos. Ég vil ekki missa hann út tímabilið."
Talið er að Liverpool sé reiðubúið til að leyfa Robertson að fara í glugganum ef leikmaðurinn biður um það, til að þakka honum fyrir dygga þjónustu eftir tæpan áratug hjá félaginu.
Englandsmeistarar Liverpool eru í fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 36 stig eftir 23 umferðir.
Athugasemdir


