sun 25. júlí 2021 09:00
Elvar Geir Magnússon
Tilboði Liverpool í Chiesa hafnað - Man Utd tilbúið að selja Martial
Powerade
Federico Chiesa varð Evrrópumeistari með ítalska landsliðinu.
Federico Chiesa varð Evrrópumeistari með ítalska landsliðinu.
Mynd: Getty Images
Wijnaldum segir að stuðningsmenn Liverpool hafi gert sig að sökudólgi á samfélagsmiðlum.
Wijnaldum segir að stuðningsmenn Liverpool hafi gert sig að sökudólgi á samfélagsmiðlum.
Mynd: Getty Images
Ensku götublöðin eru í sérstaklega miklu stuði á sunnudögum. Enda er sunnudagur besti dagur vikunnar. Pogba, Chiesa, Correa, Martial, Werner, Griezmann, Ronaldo og fleiri í pakkanum í dag.

Juventus hefur hafnað 86 milljóna punda tilboði frá Liverpool í ítalska vængmanninn Federico Chiesa (23). Chiesa kom til Juventus frá Fiorentina í október 2020. (Repubblica)

Arsenal, Tottenham og Everton íhuga öll að gera tilboð í argentínska framherjann Joaquin Correa (26) sem mun væntanlega yfirgefa Lazio í sumar. (Corriere dello Sport)

Manchester United er tilbúið að selja Anthony Martial (25) en Tottenham hefur áhuga á franska framherjanum. (Star)

Ole Gunnar Solskjær vill að franski miðjumaðurinn Paul Pogba (28) verði áfram hjá Manchester United en Paris St-Germain hefur áhuga á honum. Solskjær segir að viðræður United við umboðsmenn Pogba standi yfir. (Manchester Evening News)

Bayern München hefur áhuga á Timo Werner (25), sóknarmanni Chelsea. Julian Nagelsmann, stjóri Bayern, var með Werner hjá RB Leipzig. (Football Insider)

Manchester City ætlar að tvöfalda laun miðvarðarins Ruben Dias (24) eftir frábært fyrsta tímabil hans hjá félaginu. (Star)

Franski sóknarmaðurinn Antoine Griezmann (30) er bara tilbúinn að yfirgefa Barcelona ef hann fær tækifæri á að snúa aftur til Atletico Madrid. (Sport)

Pavel Nedved, varaforseti Juventus, segir að Cristiano Ronaldo (36) verði áfram hjá félaginu. Ronaldo á eitt ár eftir af samningi sínum við ítalska félagið og hefur verið orðaður við brottför. (Sky Sports Italia)

Georginio Wijnaldum (30) segir að hann hafi ekki fundið fyrir ást frá stuðningsmönnum Liverpool og hann hafi verið gerður að sökudólgi á samfélagsmiðlum. Wijnaldum yfirgaf Liverpool á frjálsri sölu í sumar og samdi við PSG. (Observer)

Arsenal vonast til að staðfesta 50 milljóna punda kaup á enska varnarmanninum Ben White (23) frá Brighton á næstu dögum. (Mail)

Arsenal er einnig að reyna að fá svissneska miðjumanninn Denis Zakaria (24) sem vill yfirgefa Borussia Mönchengladbach. (Mirror)

Crystal Palace er að nálgast samkomulag um 20 milljóna punda kaup á danska varnarmanninum Joachim Andersen (25) frá Lyon en hann lék á síðasta tímabili með Fulham á lánssamningi. Þá er Palace í viðræðum við Schalke um tyrkneska miðvörðinn Ozan Kabak (21) sem var hjá Liverpool á láni. (Mail)

Blackburn hafnaði 15 milljóna punda tilboði Watford í Adam Armstrong (24) en félagið vill fá 25 milljónir punda fyrir enska sóknarleikmanninn. (Sun)

Troy Deeney (33), fyrirliði Watford, var skráður sem 'Tom Deeney' í leikskrá fyrir vináttuleik gegn West Brom í gær. (Sun)
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner