Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
banner
   fim 26. nóvember 2020 12:10
Elvar Geir Magnússon
Heimild: Guardian 
Bestu og verstu stundir á rosalegum ferli Maradona
Mynd: Getty Images
Hendi guðs.
Hendi guðs.
Mynd: Getty Images
Diego Maradona 1982.
Diego Maradona 1982.
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Argentínumaðurinn Diego Maradona lifði einstöku lífi. Guardian hefur tekið saman bestu og verstu stundirnar á rosalegum ferli Argentínumannsins sem nú er látinn, 60 ára að aldri.

BESTU STUNDIRNAR:

1) HM unglingalandsliða 1979
Hæfileikar Diego Maradona komu fljótlega í sviðsljósið. Í fyrsta aðalliðsleik sínum fyrir Argentinos Juniors í Buenos Aries 1977 klobbaði þessi sextán ára lágvaxni leikmaður argentínska landsliðsmanninn José Daniel Valencia hjá Talleres. Hann var einn af sex landsliðsmönnum í liðinu. Blaðamaður skrifaði: „Diego hefði ekki getað verið meira sama".

César Luis Menotti landsliðsþjálfari valdi Maradona ekki í HM hópinn. „Hann er of ungur en ég held að hann verði fyrirliði 1982." Maradona sýndi í staðinn listir sínar á HM unglingalandsliða 1979. Hann var leikmaður mótsins, skoraði sex mörk, þar á meðal sigurmarkið í úrslitaleiknum þegar aukaspyrna hans hafnaði í neti landsliðs Sovétríkjanna.

2) Mexíkó 1986
Sjö árum síðar var Maradona krýndur heimsmeistari. Brasilía og Frakkland voru sigurstranglegust fyrir mótið í Mexíkó. Maradona, eina stórstjarna Argentínu, var að glíma við hnémeiðsli og var í misstórum skóm vegna ökklameiðsla sem hann hlaut hjá Barcelona. Snjallt mark gegn ríkjandi meisturum Ítalíu var fylgt eftir með leikni gegn Úrúgvæ. Á eftir því kom hvert snilldaratvikið á fætur öðru frá Maradona. Á þessu móti kom hendi guðs og eitt stórkostlegasta mark fótboltasögunnar gegn Englandi. Í úrslitaleiknum lagði hann upp sigurmarkið með sendingu sem splundraði þýsku vörninni.

3) Fyrsti Ítalíumeistaratitill Napoli
Þegar Maradona mætti til Napoli hafði liðið aðeins tvo bikarmeistaratitla í skápnum hjá sér. En þetta félag hentaði Maradona fullkomlega og öfugt. Hann varð hjartað í liðinu sem vann tvo Ítalíumeistaratitla, 1987 og 1990, bikarmeistaratitilinn 1987 og Evrópukeppni bikarhafa 1989. Það eftirminnilegasta er þó fyrsti Ítalíumeistaratitillinn. Honum var fagnað á götum úti í marga daga og settar voru á svið jarðarfarir fyrir "gömlu konuna" í Juventus. Maradona yfirgaf Napoli 1991, ekki á besta hátt og hann var sakaður um að lifa lífinu of hratt og lauslega. En félagið lagði treyju númer 10 á hilluna honum til heiðurs.

4) Sundrar Ítalíu og sigrar
Fáir töldu að Argentína ætti möguleika á að verja heimsmeistaratitil sinn á Ítalíu 1990. Fyrir mót hafði liðið aðeins unnið einn af síðustu tíu leikjum og hann var gegn Ísrael. Þeir hófu svo HM á sjokkerandi tapi gegn Kamerún. En Maradona var með aðrar hugmyndir og hann kom skipinu á beinu brautina. Liðið mætti Ítalíu í undanúrslitum, leikurinn fór fram í Napoli.

Fyrir leikinn talaði Maradona til stuðningsmanna Napoli: „364 daga á ári koma aðrir Ítalir fram við ykkur eins og skít. Í dag vilja þeir að þið séuð ítalskir og styðjið liðið." - Það heyrðist lítið úr stúkunni og ítalska liðið náði sér ekki á strik. Argentína vann í vítaspyrnukeppni. Maradona skoraði af öryggi úr sinni spyrnu og fagnaði fyrir framan ringlaða íbúa Napoli sem vissu ekki hvort þeir ættu að styðja Ítalíu eða Maradona.

Guido Buchwald, varnarmaður Þýskalands, náði að loka á Maradona í úrslitaleiknum. Þýskaland vann og Maradona yfirgaf mótið með tárin í augunum. Þrátt fyrir allt var frammistaðan á mótinu mögnuð og verður lengi í minnum höfð.

VERSTU STUNDIRNAR:

1) Rauða spjaldið á Spáni 1982
Heimurinn hafði beðið eftir að sjá hinn 21 árs Maradona á stærsta sviðinu. Fyrir HM 1982 var óttast að hann yrði ítrekað sparkaður niður eins og gerðist með Pele 1966. Sú varð raunin. Ítalski varnarmaðurinn Claudio Gentile braut á honum trekk í trekk. Gegn Brasilíu missti Maradona stjórn á skapi sínu með því að spyrna tökkunum á heilagan stað á Batista þegar Brasilía var 3-0 yfir.

2) Barist við Bilbao
Þegar Maradona var hjá Barcelona tók hann þátt í auglýsingaherferð með slagorðinu "Eiturlyf drepa. Njóttu lífsins!". Maradona lá brosandi á ströndinni í lok sjónvarpsauglýsingarinnar. Annars var ekki mikið um jákvæðni á tveimur árum á Nývangi. Hann fékk lifrabólgu á fyrra tímabilinu og á því seinna lenti hann í erfiðum ökklameiðslum eftir tæklingu Andoni Goikoetxea, leikmanns Athletic Bilbao. Goikoetxea fékk viðurnefnið 'slátrarinn frá Bilbao'.

Liðin mætust aftur í úrslitum spænska Konungsbikarsins. Bilbao vann og eftir leikinn ötuðust leikmenn Bilbao í Maradona sem endaði með miklum látum. Goikoetxea átti hátt spark í bringu Maradona. Skömmu síðar seldi Barcelona stjörnuleiknmann sinn til Napoli.

3) Fall á lyfjaprófi
Maradona var valinn aftur í argentínska landsliðið 33 ára þegar liðið var í erfiðri stöðu í undankeppninni fyrir HM 1994. Argentína komst áfram og eftir að Maradona skoraði í 4-0 sigri gegn Grikklandi fagnaði hann með því að elta sjónvarpsmyndavél við hliðarlínuna og öskra í linsuna. Maradona var svo mikilvægur í 2-1 sigri gegn Nígeríu og eftir leikinn var rætt um hvort Argentína færi aftur í úrslitaleikinn. En eftir leikinn féll Maradona á lyfjaprófi og var sendur heim með skömm. Vonir Argentínu hurfu. Leiðinlegur endir á mögnuðum ferli en það var aldrei að fara að gerast að Maradona myndi hætta á rólegum nótum.

4) Skaut á fréttamenn með loftriffli
Maradona skaut á fréttamenn með loftriffli fyrir utan sumarhús hans í Buenos Aires. Fjórir fréttamenn særðust og lögðu fram kærur.
Athugasemdir
banner
banner
banner