Eysteinn Húni Hauksson þjálfari Keflavíkur var tekinn í viðtal eftir tap gegn nágrönnunum í Njarðvík í 16-liða úrslitum Mjólkurbikarsins fyrr í kvöld.
Leikurinn var framlengdur og gerði Kenneth Hogg sigurmark Njarðvíkur með langskoti í upphafi framlengingar.
„Bæði liðin eru mjög vel undirbúin gagnvart hvort öðru og þetta eru miklir baráttuleikir. Eins og við segjum, þetta féll þeirra megin. Það var skrautlegt markið þeirra, stundum er þetta bara svona," sagði Eysteinn.
„Fótboltinn er bara svona, stundum fer ekkert inn. Ég er ekkert að kvarta, þeir fengu mjög góð færi líka. Síðan kemur þetta mark utan af kanti úr ólíklegustu átt."
Keflavík var án Adams Árna Róbertssonar, Frans Elvarssonar og Rúnars Þórs Sigurgeirssonar sem eru frá vegna meiðsla.
„Það reyndi á dýptina í leikmannahópnum okkar núna og ég treysti þessum strákum fullkomlega til að spila þennan leik. Með örlítilli heppni okkar megin þá værum við hérna í skýjunum með þeirra frammistöðu."
„Vindurinn lék stórt hlutverk og mér fannst Njarðvíkingarnir fá aðeins meira sjálfstraust, sem er kannski eðlilegt ef við skoðum leikreynslu og annað."
„Ég er ekki sáttur við það að tapa en óska Njarðvíkingum bara til hamingju með sigurinn."
Athugasemdir






















