Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   mið 28. desember 2022 17:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Emelía ætlar að verða ein sú besta í heiminum - „Sé ekki eftir þeirri ákvörðun"
Emelía Óskarsdóttir í leik með Kristianstad.
Emelía Óskarsdóttir í leik með Kristianstad.
Mynd: Kristianstad
Svo er auðvitað góð vinkona mín Amanda í liðinu og það er alltaf gaman að vera með henni
Svo er auðvitað góð vinkona mín Amanda í liðinu og það er alltaf gaman að vera með henni
Mynd: Kristianstad
Þótt allir séu góðir vinir þá er þetta mjög sterkt lið með mörgum landsliðskonum og samkeppnin er mikil.
Þótt allir séu góðir vinir þá er þetta mjög sterkt lið með mörgum landsliðskonum og samkeppnin er mikil.
Mynd: Kristianstad
Svo hef ég líka bætt mig mikið í taktík, hef lært helling hérna enda miklu meiri áhersla lögð á taktík en heima
Svo hef ég líka bætt mig mikið í taktík, hef lært helling hérna enda miklu meiri áhersla lögð á taktík en heima
Mynd: Kristianstad
Emelía er dóttir þjálfarans Óskars Hrafns Þorvaldssonar.
Emelía er dóttir þjálfarans Óskars Hrafns Þorvaldssonar.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Það er erfitt að útskýra það… ég sakna bara Gróttu, heildarinnar
Það er erfitt að útskýra það… ég sakna bara Gróttu, heildarinnar
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Einnig að muna að æfa vinstri fótinn sinn líka og hægri fótinn ef þú ert betri með vinstri
Einnig að muna að æfa vinstri fótinn sinn líka og hægri fótinn ef þú ert betri með vinstri
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Emelía Óskarsdóttir, leikmaður U19 ára landsliðsins og Kristianstad í Svíþjóð, var í skemmtilegu viðtali sem birtist í jólablaði Gróttu sem gefið var út fyrir jólin. Jórunn María Þorsteinsdóttir Bachmann ritstýrði blaðinu í ár. Í blaðinu, sem gefið var út í tólfta sinn í ár, má finna skemmtileg viðtöl, ýmsar fréttir og fróðleik.

Jórunn tók viðtalið við Emelíu og gaf góðfúslegt leyfi á birtingu þess hér á Fótbolti.net. Fyrirsögnin á viðtalinu er: Fyrsta Gróttukonan í atvinnumennsku Allt hér að neðan er úr blaðinu sjálfu og eru svör Emelíu skáletruð.

Inngangur:
Hin 16 ára Emelía Óskarsdóttir flutti til Svíþjóðar snemma á árinu er hún gekk í raðir sænska úrvalsdeildarfélagsins Kristianstads DFF. Emelía gerði þriggja ára samning við Kristianstad sem tók í gildi í mars á þessu ári þegar Emelía varð 16 ára. Samningurinn var stórt skref fyrir þessa ungu og efnilegu knattspyrnukonu og mikil viðurkenning fyrir Emelíu, en Kristianstad hefur á síðustu árum verið eitt allra besta lið Svíþjóðar. Emelía hefur leikið 18 leiki með yngri landsliðum Íslands og skorað í þeim 10 mörk, en hún hefur spilað með U16, U17 og U19 ára landsliðum Íslands. Hún er fyrsta Gróttukonan til að fara út í atvinnumennsku og frábær fyrirmynd fyrir ungar knattspyrnustúlkur- og drengi í félaginu.

Emelía hóf knattspyrnuferil sinn í 8. flokki Gróttu fimm ára gömul og lék upp yngri flokkana með Gróttu og Gróttu/KR. „Orri bróðir minn var búinn að vera í tvö ár í fótbolta og við horfðum mikið á fótbolta saman, söfnuðum fótboltaspilum og svoleiðis svo um leið og ég hafði aldur til þá var ég mætt á æfingu.“  Emelía æfði margar íþróttir þegar hún var yngri en þegar hún byrjaði í 6. bekk í Mýrarhúsaskóla varð fótboltinn númer eitt, tvö og þrjú. „Ég var búin að vera að æfa ýmislegt annað með fótboltanum - handbolta, karate, fimleika, selló og píanó... nefndu það, ég prófaði það. Síðan þegar ég var byrja í 6. bekk þá var það bara fótboltinn.“ Emelía æfði og keppti bæði með strákum og stelpum í yngri flokkum Gróttu og þótti snemma mjög efnileg. „Ég tók alltaf svona annaðhvert ár, þegar ég var á yngra ári þá æfði ég með stelpunum, 2005 og 2006 og síðan þegar ég var á eldra ári var ég að æfa og spila með strákunum. Þetta var ekki beint planað samt.“ Vorið 2020, þegar Emelía var nýorðin 14 ára, byrjaði hún að æfa með meistaraflokki Gróttu sem var þá á leið í sitt fyrsta tímabil í Lengjudeildinni. Emelía spilaði 12 leiki með liðinu í Lengjudeildinni það sumarið og skoraði eitt mark.

Hlutirnir gerðust hratt eftir áhuga Kristianstads
Sumarið 2021 flutti Emelía til Danmerkur og spilaði með unglingaliðum Ballerup-Skovlunde Fodbold, betur þekktu sem BSF, þar sem frammistaða hennar vakti athygli Kristianstad og fleiri stórliða. Í byrjun janúar á þessu ári fór Emelía á reynslu til Kristianstad og í framhaldinu skrifaði hún undir hjá félaginu. „Þetta gerðist frekar hratt, ég var uppi í sumarbústað milli jóla og nýárs með Covid þegar Beta (Elísabet Gunnarsdóttir) bað okkur um að koma á fund og í framhaldinu hvort ég vildi koma á reynslu. Viku seinna var ég komin út á æfingu. Það voru nokkur önnur dönsk lið sem höfðu sýnt mér áhuga, m.a. FC Nordsjælland og það munaði litlu að ég færi þangað en mér leist best á Kristianstad og sé ekki eftir þeirri ákvörðun. Þetta er risastór breyting en ég hef verið fljót að aðlagast.“

Hin 16 ára Emelía skrifaði undir þriggja ára samning við sænska úrvalsdeildarfélagið Kristianstads DFF sem tók gildi í mars á þessu ári. Fyrstu vikurnar í Svíþjóð lék hún með unglingaliði Kristianstads, U19 ára liðinu sem er svipað 2. flokki hérlendis, en æfði með aðalliðinu. Emelía spilaði síðan sinn fyrsta leik fyrir aðalliðið í apríl þegar liðið mætti Eskilstuna í sænsku deildinni. „Ég kom inná fyrir Amöndu Andradóttur í seinni hálfleik. Ég var í hálfgerðu blackouti af spenningi og hljóp inná á vitlausan kant. Ég var samt meira spennt heldur en stressuð. Mamma var að horfa í stúkunni og hún sagði að ég hefði staðið mig rosalega vel.“ 

Eins og lítil fjölskylda
En hvernig líður þessari 16 ára stelpu frá Seltjarnarnesi í sænska úrvaldsdeildarliðinu Kristianstads? „Mér líður bara frábærlega, þetta er mjög gott umhverfi. Allir liðsfélagarnir mínir eru yndislegir og þjálfarateymið líka, þetta er bara eins og lítil fjölskylda. Í liðinu eru leikmenn eins og kanadísku landsliðskonurnar Evelyne Viens og Gabrielle Carly, sem urðu Ólympiumeistarar með kanadíska landsliðinu í Tókíó 2021. Evelyne er framherji og Carly er varnarmaður og þær hafa tekið mér frábærlega og kennt mér mikið. A-landsliðskonan Hlín Eiríksdóttir var að ganga til liðs við okkur og ég hlakka mikið til að kynnast henni og spila með henni. Svo er auðvitað góð vinkona mín Amanda í liðinu og það er alltaf gaman að vera með henni. Þótt allir séu góðir vinir þá er þetta mjög sterkt lið með mörgum landsliðskonum og samkeppnin er mikil. “

Elísabet Gunnarsdóttir hefur verið aðalþjálfari Kristianstad síðan árið 2009 og er á sínu þrettánda ári með liðið. Emelía segir að það hjálpi til að vera með íslenskan þjálfara þegar verið er að aðlagast breyttum aðstæðum. „Það hjálpar til sérstaklega þegar maður er svona ungur að taka stórt skref. Þótt ég kunni ensku þá er þetta aðeins heimilislegra, að geta bara talað sitt tungumál við þjálfarann og hún við mig. Það munar miklu finnst mér. Það sem hefur líka breyst er að í aðalliði Kristianstad er töluð enska sem er auðveldari fyrir mig heldur en danskan í unglingaliðunum í Danmörku og sænskan í unglingaliðunum í Svíþjóð. Það gat oft verið mjög erfitt að skilja fyrirmælin og planið í hálfleik í þeim leikjum og stundum vissi ég hreinlega ekki hvað þjálfarinn var að segja. Þá var bara að fara út, hlaupa með boltann framhjá vörninni og skora,“ segir Emelía hlæjandi.

Stórt stökk
Það felast ýmsar áskoranir í því að flytja til útlanda og hefja nýjan kafla, hvað þá þegar maður er 16 ára. En hverjar hafa verið helstu áskoranirnar að mati Emelíu? „Fótboltalega séð þá var það klárlega þetta stóra skref að fara úr 3. flokks eða U16 fótbolta, í fullorðinsfótbolta í aðalliðinu. Ég var samt fljót að aðlagast bæði félagslega og fótboltalega og þar hjálpaði æfingaferð sem við fórum í til Spánar mikið. Líka að mamma, Orri og Magnea systir mín voru í Kaupmannahöfn sem er bara einn og hálfan tíma í burtu og mamma kom mjög oft til mín á meðan ég var að aðlagast.“ Aðspurð hvað kom Emelíu mest á óvart við það að fara til Svíþjóðar segir hún að það sé tempóið. „Tempóið var svo ótrúlega hátt miðað við það sem ég var vön. Ég var alveg að búast við því að það yrði hátt en þetta var svona next level.“ Það er stórt stökk að fara úr því að spila með unglingaliðum í að spila með Kristianstads í sænsku úrvalsdeildinni. Emelía nefnir að hún hafi þroskast mikið sem leikmaður eftir að hún kom í Kristianstad, en einnig sem einstaklingur. „Ég er orðin miklu sjálfstæðari eftir að ég flutti út, það fylgir þessu. Eitt af því sem mér finnst ég hafa bætt sem leikmaður er að ég er orðin mun þroskaðri og sterkari leikmaður heldur en þegar ég kom fyrst til Kristianstads. Ég var mikið að hlaupa bara með boltann í hvert sinn sem ég fékk hann, en leikskilningurinn hefur aukist mikið og því fylgja betri ákvarðanir þegar ég er með boltann. Ég er orðin betri skotmaður, bæði með hægri og vinstri. Svo hef ég líka bætt mig mikið í taktík, hef lært helling hérna enda miklu meiri áhersla lögð á taktík en heima.“

Hvernig er hinn týpíski dagur hjá Emelíu í Svíþjóð? „Ég vakna og fæ mér hafragraut, læri það sem ég þarf þann daginn og horfi á Grey’s Anatomy inni á milli. Legg síðan af stað á æfingu um svona tvö leytið, ég er í hálftíma í strætó á leiðinni á völlinn. Það er oftast æfing kl. 15:30 eða 16. Eftir æfingu erum við aðeins inni í teygjuherbergi að teygja á, síðan fer ég heim og borða með fósturfjölskyldunni minni og hef það huggulegt. Þetta er venjulegur dagur á tímabilinu. Þegar undirbúningstímabilið er í gangi þá æfum við tvisvar á dag flesta daga, styrkur á morgnanna klukkan átta og fótbolta og taktík á daginn. Það er mjög krefjandi tímabil og þá gerir maður lítið annað en að borða, æfa og sofa.“

Fyrsta markið kom í september
Í september síðastliðnum skoraði Emelía sitt fyrsta mark fyrir aðallið Kristianstads í sænsku úrvalsdeildinni. Emelía kom inn á undir lok fyrri hálfleiks þegar Kristianstads tók á móti Hammarby. Hún skoraði þriðja mark liðsins en Kristianstads fór með 3-1 sigur. Hvernig var tilfinningin? „Þetta var bara ein besta tilfinning sem ég hef upplifað. Það er erfitt að lýsa því en það er klikkað að koma inn á í þessu andrúmslofti og með allan þennan fjölda í stúkunni. Þetta var erfiður leikur, hátt tempó og gaman að koma inná. Þetta var í fyrsta sinn sem ég hafði spilað svona mikið með liðinu og bara geggjað að ná að skora. Einfaldlega frábær tilfinning.“

Hvað finnst þér best að borða fyrir leiki? „Það er mjög mismunandi eftir því klukkan hvað við erum að spila en ég er ekki beint með eitthvað sérstakt sem ég borða fyrir leik. Ég borða oft pasta með kjúkling, pestó og maísbaunum - mér finnst það mjög gott. Svo borða ég eiginlega alltaf egg svona klukkutíma fyrir leik.“

Emelía er uppalin Gróttukona og æfði og spilaði upp alla yngri flokka félagsins og með meistaraflokki áður en hún flutti til Danmerkur í fyrra. En hvers saknar hún mest við Gróttu? „Það er erfitt að útskýra það… ég sakna bara Gróttu, heildarinnar.“ Undirrituð skilur hvað hún á við og annað Gróttufólk gerir það eflaust líka.

Emelía stefnir enn hærra í framtíðinni og eru markmið hennar að sjálfsögðu háleit, enda ótrúlega góður og efnilegur leikmaður hér á ferð. „Markmiðið mitt er að spila með einhverjum af bestu liðum heims og verða ein af bestu leikmönnum í heimi. Það er ekki flóknara en það.“

Emelía er frábær fyrirmynd fyrir ungra iðkendur í Gróttu og er það mikið gleðiefni að ungir Gróttuleikmenn eigi ekki einungis góðar fyrirmyndir innan félagsins heldur einnig úti í heimi. En er Emelía með einhver ráð til ungra leikmanna í Gróttu? „Já, að æfa mikið og muna að hafa gaman, það er mikilvægt. Einnig að muna að æfa vinstri fótinn sinn líka og hægri fótinn ef þú ert betri með vinstri.“

Smelltu hér til að nálgast vefútgáfu blaðsins.
Athugasemdir
banner
banner
banner