Championship félagið Middlesbrough er búið að krækja í Jeremy Sarmiento úr röðum Brighton, eftir að hafa varið fyrri hluta tímabilsins á láni hjá Cremonese í ítalska boltanum.
Sarmiento er 23 ára kantmaður sem fann ekki taktinn með Cremonese og var lítið sem ekkert notaður hjá nýliðunum í Serie A.
Sarmiento kemur til Middlesbrough á lánssamningi með árangurstengdri kaupskyldu eftir að sýnt magnaða takta á köflum ferilsins án þess að takast þó að halda miklum stöðugleika í frammistöðum sínum.
Hann er með eitt og hálft ár eftir af samningi við Brighton og vonast úrvalsdeildarfélagið til að lánsdvöl hans hjá Boro gangi upp. Championship félagið mun greiða um 5 milljónir punda í heildina til að festa kaup á Sarmiento.
Kantmaðurinn býr yfir góðri reynslu úr Championship deildinni eftir að hafa hjálpað Burnley upp um deild í fyrra, en þar áður hjálpaði hann Ipswich Town upp úr deildinni auk þess að leika á láni hjá West Bromwich Albion.
Middlesbrough hefur verið meðal sterkari liða Championship deildarinnar síðastliðin ár án þess þó að takast að komast upp í deild þeirra bestu. Liðið er í öðru sæti sem stendur með 55 stig eftir 29 umferðir, þremur stigum á eftir toppliði Coventry.
Sarmiento á fimmtán úrvalsdeildarleiki að baki fyrir Brighton en hann var mikilvægur hlekkur í unglingalandsliðum Englands áður en hann valdi að spila fyrir A-landslið Ekvador.
Hann á 2 mörk í 24 leikjum fyrir Ekvador en hefur ekki verið í síðustu landsliðshópum vegna lítils spiltíma með félagsliði. Hann vill aukinn spiltíma í vor til að auka líkurnar á að komast í lokahópinn fyrir HM.
Ekvador átti frábæra undankeppni fyrir HM og endaði í öðru sæti á eftir ríkjandi heimsmeisturum Argentínu.
Welcome to Boro, Jeremy Sarmiento ???????? ????
— Middlesbrough FC (@Boro) January 27, 2026
Athugasemdir



