Bruno íhugar sína stöðu á Old Trafford - Kane ræðir við Bayern um framlengingu - Beto á blaði Juve
banner
   þri 27. janúar 2026 22:17
Ívan Guðjón Baldursson
Ítalski bikarinn: Albert og félagar úr leik á heimavelli
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Fiorentina 1 - 3 Como
1-0 Roberto Piccoli ('7 )
1-1 Sergi Roberto ('20 )
1-2 Nico Paz ('60 )
1-3 Alvaro Morata ('91 )

Fiorentina er úr leik í ítalska bikarnum eftir tap á heimavelli gegn Como í 16-liða úrslitum.

Leikurinn byrjaði vel í Flórens þar sem Roberto Piccoli tók forystuna snemma leiks eftir góða hápressu heimamanna en Sergi Roberto, fyrrum leikmaður Barcelona, jafnaði eftir hornspyrnu á 20. mínútu.

Staðan var jöfn 1-1 eftir nokkuð jafnan fyrri hálfleik en gríski framherjinn Anastasios Douvikas þurfti að fara meiddur af velli og kom hinn feykiöflugi Nico Paz inn af bekknum í hans stað.

Como tók öll völd á vellinum eftir leikhlé og náði Nico Paz forystunni eftir skyndisókn á 60. mínútu. Albert Guðmundsson kom inn af bekknum skömmu síðar fyrir Piccoli sem varð fyrir hnjaski.

Lærlingar Cesc Fábregas héldu áfram að sækja en náðu ekki að ganga frá leiknum fyrr en í uppbótartíma þegar Álvaro Morata lét til skarar skríða.

Morata kom inn af bekknum eftir rétt rúman mánuð frá keppni vegna meiðsla og var líflegur áður en hann skoraði eftir aðra skyndisókn. Nicolas-Gerrit Kühn átti frábæra stoðsendingu þar sem hann hljóp hálfan völlinn með boltann áður en hann lagði upp fyrir Morata sem skoraði úr algjöru dauðafæri.

Lokatölur 1-3 og á Como útileik við Ítalíumeistara Napoli í 8-liða úrslitum bikarsins.


Smelltu hér til að kaupa áskrift að Livey

Athugasemdir
banner
banner