Franskir fjölmiðlar greina frá því að varnarmaðurinn efnilegi Jérémy Jacquet sé búinn að velja Chelsea sem næsta áfangastað.
Chelsea er í viðræðum við Rennes um félagaskipti fyrir miðvörðinn, en franska félagið vill ekki selja hann fyrr en næsta sumar. Chelsea ætlar þrátt fyrir það að gera allt í sínu valdi til að fá leikmanninn til sín í janúar.
Jacquet er lykilmaður í liði Rennes sem er í harðri baráttu um evrópusæti í frönsku deildinni. Hann er aðeins 20 ára gamall og hefur verið mikilvægur hlekkur upp ógnarsterk yngri landslið Frakka, með 31 leik að baki.
Jacquet er miðvörður að upplagi en hefur einnig verið notaður sem hægri bakvörður og varnartengiliður.
Talið er að hann muni koma til með að kosta um 60 milljónir evra, en hann er með þrjú og hálft ár eftir af samningi við Rennes.
Öll helstu stórveldi Evrópu eru sögð hafa sýnt Jacquet áhuga en hann vill skipta til Chelsea. Hann hefur mikla trú á verkefninu sem er í gangi þar.
Athugasemdir


