Það fóru tveir leikir fram í efstu deild þýska boltans í kvöld þar sem evrópubaráttulið RB Leipzig og Hoffenheim áttu útileiki.
Kantmaðurinn efnilegi Yan Diomande tók forystuna fyrir RB Leipzig í seinni hálfleik gegn St. Pauli í Hamborg. Hann skoraði með skoti rétt utan vítateigs eftir hornspyrnu og átti markvörðurinn aldrei möguleika á að verja.
Diomande er 19 ára gamall og hefur verið í miklu stuði á tímabilinu. Hann er núna kominn með þrjár stoðsendingar og fjögur mörk í síðustu sjö leikjum.
Leipzig var sterkari aðilinn en heimamenn fengu sín færi og tókst þeim að jafna í uppbótartíma þegar Martijn Kaars skoraði af vítapunktinum. Lokatölur 1-1.
St. Pauli er í fallsæti með 14 stig eftir 19 umferðir á meðan Leipzig er í fjórða sæti eftir jafnteflið, þremur stigum á eftir Hoffenheim sem lagði Werder Bremen að velli. Cole Campbell var ekki í hóp hjá Hoffenheim vegna meiðsla.
Alexander Prass skoraði fyrsta mark leiksins undir lok fyrri hálfleiks í Bremen og var það ekki af verri endanum. Hann þrumaði boltanum undir samskeytin af um 25 metra færi eftir nokkuð jafnan slag fram að því.
Wouter Burger var svo rekinn af velli með beint rautt spjald í upphafi síðari hálfleiks en tíu leikmenn Hoffenheim brugðust vel við og náðu að tvöfalda forystuna. Grischa Prömel skoraði eftir atgang í vítateignum í kjölfar aukaspyrnu og lagði Hoffenheim rútunni fyrir framan eigið mark.
Heimamönnum tókst ekki að minnka muninn gegn þéttum varnarmúr Hoffenheim svo lokatöur urðu 0-2. Flottur sigur hjá tíu leikmönnum Hoffenheim en þetta er fjórði sigur liðsins í röð.
Hoffenheim er þremur stigum á eftir Borussia Dortmund sem situr í öðru sætinu en það eru ellefu stig í topplið FC Bayern sem tapaði óvænt um helgina.
Bremen er þremur stigum fyrir ofan fallsvæðið.
St. Pauli 1 - 1 RB Leipzig
0-1 Yan Diomande ('66 )
1-1 Martijn Kaars ('93, víti)
Werder 0 - 2 Hoffenheim
0-1 Alexander Prass ('44 )
0-2 Grischa Promel ('54 )
Rautt spjald: Wouter Burger, Hoffenheim ('52)
Athugasemdir



