Real Madrid vill tvo leikmenn Chelsea - Man Utd hefur áhuga á Vlahovic - Bernardo Silva íhugar að fara til Sádi-Arabíu næsta sumar
banner
   mán 29. september 2025 20:36
Ívan Guðjón Baldursson
Ítalía: Fyrsti sigur Parma - Mikael lék allan leikinn
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Tveir síðustu leikir fimmtu umferðar ítalska deildartímabilsins fóru fram í dag þar sem Parma og Lazio náðu sér í góða sigra.

Parma tók á móti Torino og var það Mateo Pellegrino sem réði úrslitum með tvennu. Hann skoraði eina mark fyrri hálfleiksins af vítapunktinum en gestirnir jöfnuðu í upphafi síðari hálfleiks með stórkostlegu marki frá Cyril Ngonge.

Ngonge snéri tvo varnarmenn af sér áður en hann lét vaða með veikari hægri löppinni utan vítateigs og skoraði með frábæru skoti.

Staðan var því jöfn og ríkti jafnræði á vellinum þar sem hvorugu liði tókst að skapa sér góð færi. Pellegrino var þó mjög hættulegur og skallaði boltann í netið, en ekki dæmt mark vegna brots á markverðinum í aðdragandanum. Þetta var mjög umdeildur dómur en það gerði ekkert til fyrir Pellegrino því hann skoraði aftur með skalla nokkur síðar og reyndist það sigurmark leiksins.

Genoa tók svo á móti Lazio og sýndi flotta frammistöðu en tapaði þó með þriggja marka mun á heimavelli. Gæðamunur liðanna skein í gegn þegar Lazio komst í sókn þar sem Matteo Cancellieri, Valentin Castellanos og Mattia Zaccagni skoruðu mörk gestanna.

Heimamenn fengu mikið af tækifærum til að setja boltann í netið en skoruðu þó ekki svo lokatölur urðu 0-3. Mikael Egill Ellertsson lék allan leikinn.

Þetta eru dýrmætir sigrar fyrir Parma og Lazio. Parma er með fimm stig eftir fimm umferðir, einu stigi minna heldur en Lazio.

Mikael og félagar í liði Genoa sitja eftir með tvö stig.

Parma 2 - 1 Torino
1-0 Mateo Pellegrino ('36 , víti)
1-1 Cyril Ngonge ('50 )
2-1 Mateo Pellegrino ('72 )

Genoa 0 - 3 Lazio
0-1 Matteo Cancellieri ('4 )
0-2 Valentin Castellanos ('30 )
0-3 Mattia Zaccagni ('63 )
Athugasemdir