Real Madrid vill tvo leikmenn Chelsea - Man Utd hefur áhuga á Vlahovic - Bernardo Silva íhugar að fara til Sádi-Arabíu næsta sumar
banner
   mán 29. september 2025 19:00
Kári Snorrason
Viðtal
Færir sig um set í Laugardalnum - „Titillinn er ekkert vandamál fyrir mig“
Kvenaboltinn
Ólafur Kristjánsson er nýráðinn aðstoðarþjálfari kvennalandsliðsins.
Ólafur Kristjánsson er nýráðinn aðstoðarþjálfari kvennalandsliðsins.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari kvenna.
Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari kvenna.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísland leikur gegn Norður Írum í lok október.
Ísland leikur gegn Norður Írum í lok október.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Ólafur Kristjánsson er nýráðinn aðstoðarþjálfari kvennalandsliðsins. Hann lætur af störfum sem þjálfari kvennaliðs Þróttar eftir tímabilið. Þrátt fyrir ráðninguna segir hann fulla einbeitingu sína setta á að klára tímabilið með Þrótti í Bestu-deildinni og að ná Evrópusæti með liðinu.

Fótbolti.net ræddi við nýráðinn aðstoðarþjálfara kvennalandsliðsins.


„Ég þurfti að hugsa þessa ákvörðun, þurfti velta fyrir mér hvað ég ætti að gera og hvað væri best fyrir mig,“  segir Ólafur en hann var síðast aðstoðarþjálfari fyrir rúmum tuttugu árum, þá með AGF.

„Það eru ríflega 20 ár síðan. Titillinn er aðstoðarþjálfari og staðan er aðstoðarþjálfari. En í dag er það orðið þannig að í teymum að þá hafa menn sín hlutverk og menn vinna þau. Það er þessi gamla hugmynd um aðstoðaþjálfarann sem stendur fyrir aftan aðalþjálfarann og gerir allt sem hann segir og kinkar kolli. Það er ekki þannig sem menn vinna núna.“ 

„Auðvitað er Steini (Þorsteinn Halldórsson) aðalþjálfari landsliðsins og ég kem inn í teymið sem aðstoðamaður hans og fæ hlutverk frá honum sem ég sinni og vinn. Það að titillinn sé aðstoðaþjálfari er ekkert vandamál fyrir mig.“ 

Gagnrýndi Þorstein sem sérfræðingur

Ólafur Kristjánsson var sérfræðingur í EM stofunni á RÚV í sumar þar sem hann gagnrýndi landsliðsþjálfarann meðal annars.

„Þegar þú situr í sjónvarpinu og fenginn til að segja þína skoðun á því sem þú sérð er ekkert óeðlilegt við það að það komi gagnrýni. Ég vona bara að hún hafi verið fagleg. Ég veit að maðurinn þolir það alveg.“ 

„Steini er metnaðarfullur og það er hugur í honum. Ég bakka það bara upp og kem vonandi með mína reynslu og þekkingu til þess að samstarfið verði gott.“ 

Einbeitingin á Þrótt

Þróttur er í baráttu við FH um sæti í forkeppni Meistaradeildarinnar. Bæði lið eru með 39 stig nú þegar fimm umferðir eru eftir.

„Þetta er hörkubarátta og fjórir leikir eftir. Ég vil skilja liðið eftir á eins góðum stað og hægt er. Þetta er búinn að vera frábær tími og skemmtilegt verkefni.“ 

„Það var ekkert auðvelt að taka þessa ákvörðun en stundum þarf maður að vega og meta. Síðan er það bara að klára þessa fjóra leiki og reyna að ná í eins mörg stig og hægt er og vonandi verður það annað sætið.“ 


Athugasemdir
banner