Real Madrid vill tvo leikmenn Chelsea - Man Utd hefur áhuga á Vlahovic - Bernardo Silva íhugar að fara til Sádi-Arabíu næsta sumar
   mán 29. september 2025 20:07
Ívan Guðjón Baldursson
Valverde: Meðvitaður um að ég er að spila illa
Mynd: EPA
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úrúgvæski leikmaðurinn Federico Valverde er búinn að svara þeirri gagnrýni sem hefur beinst að honum á upphafi tímabils.

Hann er einn af leikmönnunum sem voru hvað mest gagnrýndir eftir 5-2 tap Real Madrid gegn Atlético Madrid um helgina, en hann á enn eftir að finna taktinn eftir þjálfaraskiptin hjá Real.

Valverde er 27 ára gamall og hefur verið algjör lykilmaður í liði Real undanfarin ár. Hann lék 65 leiki á síðustu leiktíð og er í heildina með 332 leiki að baki fyrir stórveldið. Hann hefur verið í herbúðum Real frá 18 ára aldri, eftir að hafa alist upp hjá Penarol í heimalandinu, og er varafyrirliði félagsins.

„Ég er meðvitaður um að ég er ekki að spila nægilega vel. Leikmaður veit þegar hann er ekki að gera réttu hlutina á vellinum," sagði Valverde.

„Ég byrjaði vel í þessu nýja verkefni en í síðustu leikjum hefur verið erfiðara fyrir mig að líða þægilega á vellinum og finna réttan takt. Ég mun halda áfram að leggja allt í sölurnar sem fyrirliði félagsins, bæði innan og utan vallar."

Þrátt fyrir slaka byrjun á tímabilinu er Valverde talinn ósnertanlegur hjá Real Madrid. Spænsku risarnir höfnuðu á dögunum fyrirspurn frá Manchester United sem hefur áhuga á leikmanninum.

Hann er með fjögur ár eftir af samningi sínum við Real Madrid.

Real er í öðru sæti spænsku deildarinnar með 18 stig eftir 7 umferðir.

Real heimsækir Kairat til Almaty í Kasakstan í Meistaradeild Evrópu á morgun.
Athugasemdir
banner