Real Madrid vill tvo leikmenn Chelsea - Man Utd hefur áhuga á Vlahovic - Bernardo Silva íhugar að fara til Sádi-Arabíu næsta sumar
   mán 29. september 2025 21:14
Ívan Guðjón Baldursson
Besta deildin: Víkingur einum sigri frá titlinum
Nikolaj Hansen kom Víkingum í 1-2 á 45. mínútu
Nikolaj Hansen kom Víkingum í 1-2 á 45. mínútu
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Helgi Guðjóns fagnar fyrsta marki Víkinga í kvöld
Helgi Guðjóns fagnar fyrsta marki Víkinga í kvöld
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Víkingar tryggðu sigurinn í blálokin á 96.mínútu í kvöld
Víkingar tryggðu sigurinn í blálokin á 96.mínútu í kvöld
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stjarnan 2 - 3 Víkingur R.
1-0 Örvar Eggertsson ('2)
1-1 Helgi Guðjónsson ('9)
1-2 Nikolaj Hansen ('45)
2-2 Örvar Eggertsson ('89)
2-3 Valdimar Þór Ingimundarson ('96)

Lestu um leikinn: Stjarnan 2 -  3 Víkingur R.

Stjarnan tók á móti Víkingi R. í úrslitaleik í titilbaráttu Bestu deildarinnar í kvöld og úr varð gríðarlega skemmtilegur leikur.

Örvar Eggertsson kom heimamönnum yfir eftir rétt rúma mínútu þegar hann skallaði hornspyrnu frá Samúel Kára Friðjónssyni í netið, en sjö mínútum síðar voru gestirnir úr Fossvogi búnir að jafna.

Valdimar Þór Ingimundarson gerði mjög vel að skapa gott færi fyrir Helga Guðjónsson sem kláraði fagmannlega, með viðstöðulausu skoti.

Það var mikill hraði í leiknum og fengu Víkingar bestu færin til að skora áður en Nikolaj Hansen kom boltanum loks í netið skömmu fyrir leikhlé, með skalla eftir frábæra fyrirgjöf frá Daníeli Hafsteinssyni.

Staðan var því verðskuldað 1-2 í leikhlé, en það ríkti meira jafnræði með liðunum í síðari hálfleiknum. Það var lítið um góð færi og tókst hvorugu liði að bæta marki við leikinn fyrr en á lokamínútunum.

Stjörnumenn lögðu mikið púður í sóknarleikinn á lokakaflanum en tókst ekki að brjóta niður sterka vörn Víkinga nægilega snemma. Þeim tókst það loksins á 89. mínútu þar sem Víkingar björguðu á marklínu áður en fyrirgjöf barst í teiginn sem Örvar skallaði í netið eftir að hafa unnið Ingvar Jónsson í baráttunni um boltann.

Það var hart barist í löngum uppbótartíma en undir lokin tókst Valdimar Þór Ingimundarsyni að gera sigurmark fyrir Víking. Hann náði boltanum eftir mistök hjá Samúel Kára sem var orðinn aftasti varnarmaður og kláraði örugglega framhjá Árna Snæ Ólafssyni.

Víkingur stendur því uppi sem sigurvegari og er aðeins einum sigri frá því að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn með þrjá leiki eftir óspilaða.

Stjarnan situr eftir í öðru sæti ásamt Val. Liðin eru sjö stigum á eftir Víkingi og eiga eftir að spila innbyrðisviðureign. Þau þurfa því kraftaverk til að eiga möguleika á titlinum.
Athugasemdir
banner
banner