„Þórsarar byrjuðu leikinn betur en svo eigum við góðan kafla og eins og fótbolti getur verið skrítinn þá skoruðu Þórsararnir á þeim kafla, seinni hálfleikur var svo okkar eign," sagði Ejub Purisevic, þjálfari Ólafsvíkur Víkinga, eftir 1-1 jafntefli sinna manna gegn Þór á Þórsvelli.
Lestu um leikinn: Þór 1 -1 Víkingur Ó.
Lestu um leikinn: Þór 1 -1 Víkingur Ó.
Ejub talaði þá um að markið sem liðið hans skoraði hafi verið sanngjarnt miðað við gang leiksins og lið hans hafi verið betra í flestum þáttum leiksins.
Leikurinn breyttist í seinni hálfleik. Ólafsvíkingar komu sterkari inn í leikinn og virtust Þórsarar ekki hafa lausnir á því hvernig þeir ættu að ná aftur stjórn á leiknum. Ejub var spurður að því hvort hann hafi breytt einhverju í hálfleik.
„Ég breytti aðeins í hálfleik. Við fórum aðeins framar á völlinn og svo breyti ég síðar um leikkerfi. Mér finnst samt það eina sem við þurftum að gera var að skora mark og við fengum fín færi til þess. Ég hefði orðið mjög svekktur ef við hefðum ekki náð að jafna í restina."
Ejub var spurður út í framhaldið hjá Ólafsvíkingum og markmið hans með liðið í sumar.
„Ég hef verið heppinn síðustu tíu ár ég hef alltaf verið í úrvalsdeildinni, farið upp úr næstefstu deild eða verið í baráttunni um að gera það. Ég stefni alltaf á að fara upp."
Að lokum var Ejub spurður að því hvort hann ætli sér að styrkja leikmannahópinn fyrir lok gluggans en glugginn lokast annað kvöld. Svar Ejub við þeirri spurningu sem og allt viðtalið má sjá í spilaranum efst í fréttinni.
Athugasemdir























