Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   fös 30. nóvember 2018 13:00
Magnús Már Einarsson
Álitsgjafar svara - Draumariðill Íslands í undankeppni EM
Icelandair
Hverjir verða andstæðingar Íslands í undankeppninni?
Hverjir verða andstæðingar Íslands í undankeppninni?
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Nokkrir telja vænlegt að fá Pólland úr efsta styrkleikaflokki.
Nokkrir telja vænlegt að fá Pólland úr efsta styrkleikaflokki.
Mynd: Getty Images
Erik Hamren landsliðsþjálfari Íslands.
Erik Hamren landsliðsþjálfari Íslands.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Malta er í sjötta styrkleikaflokki.
Malta er í sjötta styrkleikaflokki.
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
Eistar eru vinsælir í fjórða styrkleikaflokki.
Eistar eru vinsælir í fjórða styrkleikaflokki.
Mynd: Ingólfur Hannes Leósson
Á sunnudaginn klukkan 11:00 verður dregið í undankeppni EM 2020 sem hefst í mars á næsta ári. Ísland er í öðrum styrkleikaflokki en tvö efstu liðin í undankeppninni komast beint á EM árið 2020.

Smelltu hér til að lesa allt um dráttinn og sjá styrkleikaflokka

Fótbolti.net fékk nokkra valinkunna einstaklinga til að velja sinn draumariðil fyrir Ísland. Hér má sjá niðurstöðuna.


Arnar Björnsson, Stöð 2
Er þetta ekki málið; Pólland, Norður Írland, Kýpur, Lúxemborg, Andorra. Er ekki frá því að við séum öruggir áfram.
Þennan riðil vil ég alls ekki; Belgía, Noregur, Svartfjallaland, Kósóvó, Lettland. Norðmenn og Kósóvar eru í bullandi sókn og ég er búinn að fá nóg af Belgum..... í bili amk.

Felix Bergsson, RÚV
Ég vil sex liða riðil. Fleiri leiki og fjör. Það er svona eyjaþema í þessu hjá mér Malta, Færeyjar, Kýpur. Að auki vil ég N Írland (eyja) og svo Pólland úr fyrsta flokknum. Held að við eigum ekki séns í England eins og mál standa.

Arnór Þór Gunnarsson, landsliðsmaður í handbolta
Ég held að við verðum í sex liða riðli. Eða allavega vona ég það svo Aron geti nú kannski náð mér í landsleikjafjölda og einhverntíman slegið landsleikjamet Rúnars Kristinssonar.

1. Við fáum Ítalíu úr fyrsta styrkleikaflokki. Gæti þá horft á þá leiki með góðum félaga mínum sem er blóðheitur Ítali.
3. Ég vona að við fáum Noreg sem lið úr þriðja styrkleikaflokki. Jú því það væri gaman að fá að spila við Lars í alvöru keppnisleik og það er líka svo gaman að vinna Noreg í íþróttum.
4. Ef við fáum Slóveníu úr fjórða styrkleikaflokki þá skora ég á stjórnmálamenn og stjórnmálakonur að fara með strákunum til Lublijana og skoða Stozice Stadium. Leikvangurinn tekur 16 þúsund í sæti sem er akkúrat stærð á leikvangi sem við þurfum. Þau gætu kannski sparað og notað ferðina í að skoða líka íþróttahöll fyrir handbolta og körfubolta landsliðin í leiðinni.
5. Lúxemburg kemur úr fimmta styrkleikaflokki. Þarna eigum við að geta náð tveimur sigurleikjum þannig séð auðveldlega. Við erum einfaldlega með betra lið en þeir.
6. Malta kemur úr sjötta styrkleikaflokki í riðilinn okkar.
Þetta er riðill sem við ættum að geta náð fyrsta eða öðru sæti ef okkar bestu leikmenn verða heilir og ef við spilum okkar leik.

Haukur Páll Sigurðsson, Valur
Ítalía, Norður-Írland, Eistland, Færeyjar, San Marinó.
Þetta er riðill sem Íslenska landsliðið mun komast uppúr og það frekar auðveldlega annað væri skandall. Munum skora mikið af mörkum og halda markinu oft hreinu. EM 2020 (Staðfest). ÁFRAM ÍSLAND.

Damir Muminovic, Breiðablik
Spánn: Væri gaman að sjá strákana spreyta sig gegn léttleikandi Spánverjum. Ekki verra að fá menn eins og Ramos, Alonso og Azpiliqueta á Laugardalsvöll.

Serbía: Þó að Ísland gæti ef til vill fengið auðveldari andstæðing þá væri gaman fyrir mig persónulega að sjá þessi lið mætast. Raggi og Aron vs. Mitrovic og Matic! Auk þess gaman að hafa ástæðu til að skreppa til Serbíu.

Gíbraltar: Hef komið þangað. Fínn staður. Nei ég segi svona. Afhverju eru þeir í 5.styrkleikaflokki? Eru þetta Bretar eða Spánverjar? Hvað verður um liðið eftir Brexit? Fáum við gefins 6 stig?

San Marínó: Marinó liðsstjóri okkar Blika yrði manna sáttastur með að fá leiki á móti San Marínó. Ég er sammála honum, alltaf.

Haukur Harðarson, RÚV
Drátturinn verður sýndur beint á RÚV 2 á sunnudagsmorgun og spennan er farin að magnast allverulega. Ég hef verið að taka auka kúrsa í HR í vetur til að kynna mér fyrirkomulagið á drættinum sem hefur aldrei verið flóknara! Þrátt fyrir að það hefði verið áhugavert að vera í fyrsta styrkleikaflokki er líka algjörlega geggjað að vera í öðrum styrkleikaflokki. Við valið á riðlinum horfi ég sérstaklega til þess að það verði þægilegt að ferðast enda algjör veisla þegar þúsundir Íslendinga ferðast í útileikina. Svo vil ég bara fá þægilegan riðil! Við Íslendingar verðum einfaldlega að vera með á EM 2020 og eiga þannig möguleika á skemmtilegata Euro-trippi allra tíma.
1. styrkleikaflokkur: Frakkland.
Ég vil að Ísland verði í sex-liða riðli, einfaldlega til að fá fleiri leiki. Það útilokar meðal annars England sem fer ásamt öðrum Þjóðadeildarliðum í einn af fimm fimm-liða riðlum. Frakkland er vissulega ekki „þægilegur" andstæðingur en það er eitthvað rómantískt við að leggja heimsmeistarana á sumarkvöldi í Laugardal.

3. styrkleikaflokkur: Norður-Írland
Líklega vilja margir sjá Íslands og Noreg undir stjórn Lagerbäck eigast við en ég vil frekar að það gerist í lokakeppni EM. Það væri algjör snilld að fara á völlinn í Belfast. Windsor-park er stemningsvöllur af gamla skólanum og gaman væri að stuðningsmenn beggja þjóða myndu sameinast í „Will Grigg's on fire." Nokkuð þægilegur andstæðingur þar að auki.

4. styrkleikaflokkur: Eistland
Það væri kjörið fyrir stuðningsmenn Íslands að hittast á Islandiväljak eða „Íslandstorgi" í miðborg Tallinn og hita upp fyrir leikinn. Ísland var fyrst ríkja til að viðurkenna sjálfstæði Eista og við ættum að geta treyst á sex punkta frá þeim.

5. styrkleikaflokkur: Lúxemborg
Hérna hefði ég klárlega viljað sjá grannaslag Íslands og Færeyja en reglan um „vetrarvelli" kemur í veg fyrir það. Þar sem Eistland, sem er vetrarríki samkvæmt UEFA eins og Ísland, er þegar komið í riðilinn, er kuldakvótinn uppfylltur. Þess í stað vel ég það sem kæmist næst því að vera grannaslagur enda fjölmargir Íslendingar búsettir í Lúx. Hef heyrt af ágætis golfvöllum þarna á svæðinu sem væri hægt að kíkja á í leiðinni.

6. styrkleikaflokkur: San Marínó
Gott veður, svakaleg náttúrufegurð og öruggir sex punktar. Hvað er hægt að biðja um meira?

Hallgrímur Mar Bergmann, KA
1. Pólland
2. Ísland
3. Írland
4. Eistland
5. Gíbraltar
6. San Maríno

Ef ég skyldi þetta flókna fyrirkomulag rétt þá er þetta minn draumariðill. Ég hef hann eins auðveldan og mögulegt er, þó vissulega sé gaman að fá einhverja stóra þjóð til landsins þá nenni ég ekki að taka sénsinn á því. Þetta eru allt ömurleg lið sem við ættum alltaf að geta unnið. Pólland er besta liðið en við erum með sterkara lið, ef við náum sama skipulagi og undanfarin ár. Öll hin liðin eru drasl sem við myndum vinna í 9 af 10 skiptum. Ég vona innilega og trúi því að í mars þegar undankeppnin hefst verður þessi svokölluð þynnka horfinn úr okkar mönnum og við byrjum undankeppnina af krafti og förum að ná í sigra. Einnig vonast ég til að sjá okkar framtíðar leikmenn, Albert, Jón Dag og Arnór Sig fá mikið af leikjum í undankeppnini, þá verður þessi undankeppni geggjuð!
Athugasemdir
banner
banner
banner