
Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir, leikmaður Vals, verður ekkert með í sumar eftir að hún sleit krossband, en hún greinir frá þessu á Instagram í kvöld.
Þórdís var ein af þeim bestu er Valur vann Íslands- og bikarmeistaratitilinn á síðasta ári.
Hún spilaði 18 leiki og skoraði 6 mörk ásamt því að eiga flestar stoðsendingar en hún hlaut gullbolta Nike fyrir það afrek eftir tímabilið.
Fótbolti.net valdi hana í lið ársins í Bestu deildinni en hún mun ekki leika listir sínar með Val í sumar.
Þórdís tilkynnir á Instagram í kvöld að hún hafi slitið krossband og tekur því langt og strangt bataferli við. Hún sleit einnig krossband í leik með Stjörnunni gegn ÍBV árið 2016 og var ekkert með árið á eftir.
„Ótrúlega erfitt og svekkjandi að fá það staðfest rétt fyrir mót að krossbandið sé slitið. En eins og ég sagði síðast “I’ll be back”!“ sagði Þórdís á Instagram.
Athugasemdir