
Þór og ÍR skildu jöfn á Akureyri í vindasömu veðri. Fótbolti.net ræddi við Sigurð Heiðar Höskuldsson, þjálfara Þórs eftir leikinn.
Lestu um leikinn: Þór 1 - 1 ÍR
„Þetta var aldrei fótboltaleikur út af aðstæðum. Þetta var keppni í heppni og hugarfari sem endar 1-1. Við vorum klaufar að fá markið á okkur með vindinn í bakið. Úr því sem komið var fannst mér gott hugarfar hjá strákunum að koma til baka á móti vindi," sagði Siggi.
„Mér fannst það nokkuð vel gert hjá okkur að ná ágætis köflum í þessum aðstæðum í seinni hálfleik. En mér fannst við eiga gera töluvert betur í fyrri hálfleik, við fáum þrjú, fjögur dauðafæri sem við náum ekki að nýta og þá vinnur þú ekki."
„Þetta var svo mikill vindur að það var eiginlega bæði verra að vera með og á móti vindi. Hálf kómískt að bæði mörkin komi á móti vindi," sagði Siggi.
Liðið er enn í fallhættu þegar tvær umferðir eru eftir. Markmiðið er einfalt.
„Ég lít á það þannig að við ætlum að vinna síðustu tvo leikina og ekki falla," sagði Siggi.