Í byrjun febrúar birtum við samantekt á því hvernig Fótbolti.net lítur á baráttuna um sæti á EM í Frakklandi. Nú er enn styttra í mót og vináttulandsleikirnir gegn Dönum (2-1 tap) og Grikkjum (3-2 sigur) að baki.
Fótbolti.net veltir hér að neðan fyrir sér líklegum möguleikum í 23 manna hópinn sem fer á EM í sumar.
Markverðir:
Öruggir til Frakkands
Hannes Þór Halldórsson (Bodö/Glimt)
Ögmundur Kristinsson (Hammarby)
Hannes átti góða innkomu í leikinn gegn Grikkjum og stendur í markinu í Frakklandi ef hann er heill. Ögmundur hefur fengið talsverða gagnrýni en þjálfararnir sýna honum traust og greinilegt að þeir veðja á hann sem markvörð tvö.
Eru í baráttunni:
Gunnleifur Gunnleifsson (Breiðablik)
Ingvar Jónsson (Sandefjord)
Gunnleifur telst líklegastur til að vera þriðji markvörðurinn sem fer með en Ingvar veitir honum samkeppni. Aðrir eru ekki með í baráttunni.
Úr leik nema mikið breytist:
Haraldur Björnsson (Östersund)
Bakverðir:
Öruggir til Frakklands:
Birkir Már Sævarsson (Hammarby)
Ari Freyr Skúlason (OB)
Haukur Heiðar Hauksson (AIK)
Birkir og Ari áttu bakvarðastöðurnar í undankeppninni. Haukur hefur komið sterkur inn í vináttuleikjum í vetur og fer með.
Eru í baráttunni:
Hörður Björgvin Magnússon (Cesena)
Óvíst er hvort að annar örvfættur bakvörður fari með eða hvort Ari verði eini vinstri fótar bakvörðurinn í hópnum. Hörður býr yfir þeim kosti að vera fjölhæfur og geta leyst vinstri bakvörðinn og miðvörðinn.
Úr leik nema mikið breytist:
Diego Jóhannesson (Oviedo)
Kristinn Jónsson (Sarpsborg)
Hjörtur Logi Valgarðsson (Örebro)
Diego virðist frekar vera hugsaður sem kostur í næstu undankeppni. Hann gæti þurft meiri tíma áður en tækifærið kemur og talar hvorki íslensku né ensku. Hjörtur Logi var ekki valinn í hópinn núna og mjög ólíklegt að verið sé að horfa til hans.
Miðverðir:
Öruggir til Frakklands:
Kári Árnason (Malmö)
Ragnar Sigurðsson (Krasnodar)
Verða í hjarta varnarinnar á EM. Stóðu vaktina frábærlega í undankeppnina.
Eru í baráttunni:
Sölvi Geir Ottesen (Wuhan Zall)
Hallgrímur Jónasson (OB)
Hólmar Örn Eyjólfsson (Rosenborg)
Sverrir Ingi Ingason (Lokeren)
Hjörtur Hermannsson (Gautaborg)
Landsliðsþjálfararnir virðast alls ekki vissir um hver sé besti kosturinn til að koma inn í hjarta varnarinnar ef Kári eða Raggi detta út. Þar er samkeppnin gríðarlega hörð um tvö laus sæti í hópnum.
Úr leik nema mikið breytist:
Jón Guðni Fjóluson (Norrköping)
Var ekki valinn í hópinn núna og mjög ólíklegt að verið sé að horfa til hans.
Miðjumenn:
Öruggir til Frakklands:
Aron Einar Gunnarsson (Cardiff)
Gylfi Þór Sigurðsson (Swansea)
Eiður Smári Guðjohnsen (Molde)
Emil Hallfreðsson (Udinese)
Gylfi og Aron eru að sjálfsögðu á leiðinni til Frakklands. Emil hefur verið fastamaður í hópnum í fjölda ára en hann getur spilað bæði á miðjunni sem og á kantinum. Eiður Smári verður pottþétt í EM-hópnum að mati Fótbolta.net þrátt fyrir að hann hafi ekki verið í hópnum núna. Reynsla hans og gæði vega þungt.
Eru í baráttunni:
Rúnar Már Sigurjónsson (Gif Sundsvall)
Ólafur Ingi Skúlason (Genclerbirligi)
Líklega er eitt laust sæti í hópnum fyrir miðjumann. Þar er hörð barátta á milli Rúnars og Ólafs Inga.
Úr leik nema mikið breytist:
Eggert Gunnþór Jónsson (Fleetwood)
Oliver Sigurjónsson (Breiðablik)
Eggert fékk ekki tækifærið í hópnum gegn Dönum og Grikkjum eins og hann vonaðist eftir. Oliver á afar litla möguleika á sæti á EM en ætti að horfa til undankeppni EM.
Kantmenn:
Öruggir til Frakklands:
Birkir Bjarnason (Basel)
Jóhann Berg Guðmundsson (Charlton)
Arnór Ingvi Traustason (Norrköping)
Birkir og Jóhann Berg spiluðu á köntunum í undankeppninni og verða í Frakklandi í sumar. Arnór Ingvi varð meistari í Svíþjóð með Norrköping og hefur staðið sig frábærlega vetur og búinn að negla sæti í hópnum.
Eru í baráttunni:
Rúrik Gíslason (Nurnberg)
Theodór Elmar Bjarnason (Randers)
Rúrik þarf að komast í sitt fyrra form ef hann ætlar með. Mögulega verða Jóhann, Birkir og Arnór einu kantmennirnir þar sem Emil Hallfreðsson getur spilað á kantinum líka. Theodór Elmar gæti farið inn sem möguleiki á bæði kant og í bakverði.
Úr leik nema mikið breytist:
Elías Már Ómarsson (Valerenga)
Sóknarmenn:
Öruggir til Frakklands:
Kolbeinn Sigþórsson (Nantes)
Alfreð Finnbogason (Augsburg)
Jón Daði Böðvarsson (Kaiserslautern)
Þessir sóknarmenn spiluðu í undankeppninni og enginn veitir þeim samkeppni um sæti á EM.
Eru í baráttunni:
Viðar Örn Kjartansson (Malmö)
Viðar er í harðri baráttu. Ef Lars og Heimir taka Eið Smára með sem sóknarmann gæti Viðar setið eftir.
Úr leik nema mikið breytist:
Arnór Smárason (Hammarby)
Matthías Vilhjálmsson (Rosenborg)
Kjartan Henry Finnbogason (Horsens)
Það virðist vera búið að læsa þeim sóknarmönnum sem fara með á EM. Mathtías hefur verið að leika sem miðjumaður hjá Rosenborg en fyrst hann var ekki valinn í hópinn núna virðist barátta hans töpuð.
Athugasemdir