fim 01. október 2020 22:01
Ívan Guðjón Baldursson
Evrópudeildin: Milan vann eftir tólf vítaspyrnur
Hakan Calhanoglu er algjör lykilmaður í liði AC Milan.
Hakan Calhanoglu er algjör lykilmaður í liði AC Milan.
Mynd: Getty Images
Rio Ave 2 - 2 AC Milan
0-1 Alexis Saelemaekers ('51)
1-1 Francisco Geraldes ('72)
2-1 Dala Gelson ('91)
2-2 Hakan Calhanoglu ('122)
8-9 í vítaspyrnukeppni

AC Milan er komið í riðlakeppni Evrópudeildarinnar eftir framlengdan leik gegn Rio Ave í Portúgal.

Staðan var markalaus í leikhlé og kom Belginn fjölhæfi Alexis Saelemaekers gestunum frá Ítalíu yfir með laglegu marki eftir hornspyrnu.

Francisco Geraldes jafnaði fyrir Rio Ave og var leikurinn framlengdur. Í framlengingunni tóku heimamenn forystuna strax í byrjun og pökkuðu í vörn.

Milan sótti án afláts og átti ellefu marktilraunir í framlengingunni en boltinn rataði ekki í netið. Það var í uppbótartíma sem Hakan Calhanoglu fékk vítaspyrnu þegar boltinn fór í hendi varnarmanns Rio Ave. Calhanoglu skoraði úr spyrnunni á 122. mínútu og knúði þannig fram vítaspyrnukeppni.

Vítaspyrnukeppnin var vægast sagt ótrúleg þar sem bæði lið skoruðu úr sjö fyrstu spyrnunum og klúðruðu svo áttundu. Bæði lið skoruðu úr níundu og svo klúðraði sitthvor markvörðurinn tíundu spyrnunni.

Á þeim tímapunkti þurftu þeir leikmenn sem tóku fyrstu spyrnurnar að spyrna aftur og kláraðist leikurinn þegar Simon Kjær skoraði úr tólftu spyrnu Milan og sinni annarri í vítaspyrnukeppninni.
Athugasemdir
banner
banner