Leifur Andri Leifsson, leikmaður HK í 2. deild karla, var að vonum sáttur með 2-0 sigur liðsins á Ægi í kvöld, en liðið er tímabundið á toppnum.
,,Þetta var erfiðara en við bjuggumst við. Við settum bara tvö mörk í fyrri hálfleik og spiluðum svo frekar þétt þarna í seinni hálfleik og héldum þessu vel," sagði Leifur.
,,Alltaf þegar við vinnum tvo leiki í röð þá komum við inn í þriðja leikinn eins og við séum langbestir og alltaf eitthvað kæruleysi, en við gerðum það ekki í dag."
,,Við hleyptum engum færum á okkur, held að þeir hafi fengið einn skalla þarna á markið sem var framhjá. Við áttum að fá tvö víti og eitthvað rugl, en 2-0 er fínt."
,,Markmiðið er fyrsta sætið. Við höfum verið að tapa stigum þar sem við viljum ekki vera að tapa stigum á móti liðum sem eru neðar en við erum að vinna fína sigra núna svo að vonandi erum við komnir í gang."
Leifur og Hólmbert Aron Friðjónsson, leikmaður Fram, eru miklir félagar, en þeir spiluðu saman hjá HK. Hann segir Hólmbert svolítið stressaðan í viðtölum.
,,Ég veit það ekki, hann er flottur strákurinn. Stundum svolítið stressaður," sagði Leifur að lokum.
Hægt er að sjá viðtalið í heild sinni hér að ofan.
Athugasemdir






















