Juventus að landa Sancho - Barcelona greiðir laun Rashford - Wharton til Liverpool?
   mið 02. júlí 2014 22:56
Magnús Már Einarsson
Alfreð Finnboga: Barnæskudraumur að rætast
,,Það er búið að taka gríðarlega vel á móti mér í dag.  Þetta er fjölskylduklúbbur þar sem eru engar stjórstjörnur og allir eru ein heild.  Hugarfarið hérna í norðrinu er að þetta er vinnusamt fólk sem vinnur fyrir liðið.
,,Það er búið að taka gríðarlega vel á móti mér í dag. Þetta er fjölskylduklúbbur þar sem eru engar stjórstjörnur og allir eru ein heild. Hugarfarið hérna í norðrinu er að þetta er vinnusamt fólk sem vinnur fyrir liðið.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Alfreð í leik með Breiðablik
Alfreð í leik með Breiðablik
Mynd: Fótbolti.net - Andri Janusson
,,Það eru þrjár vikur frá því að ég heyrði að þeir ætluðu að gera tilboð og þeir höfðu samband við mína umboðsmenn og félagið. Þetta er búið að taka smá tíma og vera ágætis ferli en ég er hæstánægður með að þetta sé gengið í gegn og sé klárt," sagði Alfreð Finnbogason í viðtali við Fótbolta.net í kvöld en hann gerði í dag fjögurra ára samning við spænska félagið Real Sociedad.

Alfreð var markakóngur í Hollandi með Heerenveen á síðasta tímabili og í kjölfarið var hann orðaður við mörg félög.

,,Þetta er það sem fór langlengst. Það hefur verið áhugi hjá öðrum liðum en það er langur vegur frá því að hafa áhuga og leggja fram tilboð og klára dæmið. Ég er mjög ánægður með hvernig Sociedad kláraði sín mál. Þeir sýndu gríðarlegan mikinn áhuga á að fá mig og það finnst mér skipta miklu máli."

,,Það er búið að taka gríðarlega vel á móti mér í dag. Þetta er fjölskylduklúbbur þar sem eru engar stjórstjörnur og allir eru ein heild. Hugarfarið hérna í norðrinu er að þetta er vinnusamt fólk sem vinnur fyrir liðið."


Vildi fara í eina af bestu fjórum deildunum
Alfreð segist bíða spenntur eftir að fá að spreyta sig í einni af stærstu deildum heims.

,,Mig langaði að spreyta mig í bestu fjórum deildunum, England, Þýskaland, Spánn og Ítalía. Ég lokaði ekki á neinar dyr og var opinn fyrir öllu sem kom. Þegar ég heyrði af þessu þá fannst mér það passa inn í það sem ég var að leita að sem næsta skref á mínum ferli."

,,Ég get ekki beðið eftir að fara að byrja að æfa og spila með liðinu og hjálpa því í spænsku deildinni. Þetta er heiður og barnæskudraumur að rætast að fá að spila á móti bestu leikmönnum heims í flottu liði og í Evrópukeppni."


Spenntastur fyrir Barcelona og Real Madrid
Alfreð mun meðal annars mæta Barcelona og Real Madrid og hann bíður spenntur eftir þeim leikjum.

,,Það verða fyrstu leikirnir sem maður horfir á þegar dagskráin verður gefin út. Ég held að þetta verði mjög lærdómsríkur vetur. Þetta verður gaman. Ég ætla að njóta þess að takast á við þetta, lifa í núinu og vera ekki að spá of mikið í framtíðina."

Real Sociedad endaði í sjöunda sæti í La Liga á síðasta tímabili og liðið verður því í Evrópudeildinni næsta vetur.

,,Þeir hafa náð mjög góðum árangri síðustu tvö ár og spilað góðan bolta sem stuðningsmennirnir eru ánægðir með. Fjórða sæti í fyrra og sjöunda núna segir sitt í svona sterkri deild. Liðið var í Meistaradeildinni síðasta vetur og verður í Evrópudeildinni núna. Það eru margir flottir leikmenn þarna inn á milli og þetta er allt saman mjög flott."

Margir stuðningsmenn sent skilaboð
Antoine Griezmann og Carlos Vela skoruðu mikið fyrir Real Sociedad á síðasta tímabili og Alfreð hlakkar til að vinna með þeim í sóknarleiknum.

,,Þeir hafa verið að spila á köntunum hjá þeim í 433. Þetta eru klassa leikmenn. Þegar maður fer í alvöru lið þá er samkeppni og það er eitthvað sem ég hlakka til og er tilbúinn í. Ég þarf að berjast fyrir öllu hérna. Núna er kominn tími á að sanna mig og ég er spenntur að takast á við þetta."

Alfreð segist hafa fengið talsvert af skilaboðum frá stuðningsmönnum Sociedad eftir að félagaskiptin voru tilkynnt í dag.

,,Þeir hafa verið duglegir að senda mér skilaboð á tungumáli Baska á Twitter. Ég skil ekkert í því en ég vona að það séu jákvæð skilaboð," sagði Alfreð en Real Sociedad er frá San Sebastian í Baskalandi. Þar er talað annað tungumál en annars staðar á Spáni.

,,Þetta eru mjög ólík tungumál. Ég held að maður byrji á að taka spænskuna og síðan eitt og eitt orð í tungumáli Baska," sagði Alfreð laufléttur.
Athugasemdir
banner
banner