ÍR gerði 2-2 jafntefli gegn Keflavík í 1. deild kvenna fyrr í kvöld eftir að hafa lent tveimur mörkum undir. Við náðum tali af Andreu Magnúsdóttur, fyrirliða ÍR, eftir leik en hún var ánægð með stigið úr því sem komið var en liðið hennar var lengi í gang.
Lestu um leikinn: ÍR 2 - 2 Keflavík
„Við hefðum átt að byrja fyrr. Það er ekki nóg að byrja leikinn á 45. mínútu,“ sagði Andrea.
ÍR-liðið átti fínan seinni hálfleik eftir heldur slappan fyrri og Andrea segir að sólin hafi haft þar áhrif.
„Í fyrsta lagi þá fórum við á hinn vallarhelminginn og þá var ekki sólin í augunum á okkur. Við nýttum það og skutum og skutum á markið og hún sá ekki neitt.“
Sjálf nýtti Andrea sér sólina í eitt skiptið og skoraði með fallegu langskoti og minnkaði muninn í 2-1 þegar ÍR virtist hafa misst leikinn frá sér.
„Ég sá að hún stóð svo framarlega og var með sól í augunum svo ég ákvað bara að reyna þetta,“ sagði Andrea sem átti einnig stoðsendingu í dramatísku jöfnunarmarki ÍR á lokamínútu leiksins.
Nánar er rætt við Andreu í sjónvarpinu hér að ofan.
Athugasemdir






















