fös 02. september 2022 00:33
Ívan Guðjón Baldursson
Ten Hag: Meira en ellefu byrjunarliðsmenn í hópnum
Mynd: EPA

Erik ten Hag var kátur eftir góðan 0-1 sigur Manchester United á útivelli gegn Leicester City sem var þriðji sigur Rauðu djöflanna í röð í ensku úrvalsdeildinni.


„Við spiluðum góðan leik, strákarnir voru duglegir í vörn og skiluðu allir sínu framlagi. Mér fannst sigurinn aldrei í hættu nema kannski alveg í lokin en þá áttum við að vera búnir að skora annað mark og gera út um leikinn," sagði Ten Hag að leikslokum.

„Þeir skildu eftir mikið pláss fyrir aftan varnarlínuna og við fengum góð tækifæri á skyndisóknum sem við nýttum ekki. Það er eitthvað sem við þurfum að bæta. Við erum ánægðir með þrjá sigra í röð, strákarnir eru að leggja mikla vinnu í þeta en við ætlum ekki að fara framúr okkur og segja að við séum búnir að snúa öllu því slæma við. Það sem skiptir mestu máli er að strákarnir eru að hegða sér eins og lið, þeir berjast fyrir hvorn annan og úrslitin fylgja."

Ten Hag var að lokum spurður út í Cristiano Ronaldo sem var orðaður við félagsskipti frá Man Utd en er ennþá hjá félaginu. Hann var spurður hvort það yrði ekki erfitt fyrir Ronaldo að sætta sig við aukahlutverk líkt og það sem hann hefur fengið á upphafi tímabils þar sem hann kemur inn af bekknum til að spila lokakaflann.

„Við sögðum alltaf að Ronaldo yrði áfram hérna. Það er ekki hægt að segja neitt um liðsval svona snemma á tímabilinu, við erum með meira heldur en ellefu byrjunarliðsmenn í þessum leikmannahópi."


Athugasemdir
banner
banner
banner