Varane, Diaz, Matip, Yamal, Davies og Rashford koma við sögu
   mán 04. mars 2024 14:15
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Formaður Þórs: Þetta er bara virðingarleysi að mínu mati
Þór er efst í sínum riðli í Lengjubikarnum.
Þór er efst í sínum riðli í Lengjubikarnum.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Úr leik hjá Þórsurum á síðasta tímabili.
Úr leik hjá Þórsurum á síðasta tímabili.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
KR tapaði 4-0 gegn Þór í Boganum.
KR tapaði 4-0 gegn Þór í Boganum.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Stjarnan tapaði líka stórt gegn Þór.
Stjarnan tapaði líka stórt gegn Þór.
Mynd: Stjarnan
Sveinn Elías Jónsson, formaður knattspyrnudeildar Þórs.
Sveinn Elías Jónsson, formaður knattspyrnudeildar Þórs.
Mynd: Raggi Óla
„Þetta er bara virðingarleysi að mínu mati," segir Sveinn Elías Jónsson, formaður knattspyrnudeildar Þórs, um það að KR og Stjarnan hafi ekki mætt með sín sterkustu lið í Bogann í Lengjubikarnum.

Þór er á toppnum í riðli þrjú í A-deild Lengjubikarsins eftir 4-0 sigur gegn KR á laugardaginn. Þór, sem leikur í Lengjudeildinni, hafði áður unnið 5-1 sigur á Stjörnunni í riðlinum.

Hægt er að skoða skýrsluna úr leiknum með því að smella hérna.

Báðir þessir leikir fóru fram í Boganum á Akureyri en sá völlur er með slæmt orðspor á sér þar sem nokkrum sinnum á síðustu árum hafa komið upp slæm meiðsli þar. Stjarnan gaf út þá skýringu eftir leik sinn við Þór að menn hefðu verið hvíldir en KR lék svo sama leik og hvíldi flesta af sínum byrjunarliðsmönnum. Jafnvel þó að það hafi verið úrslitaleikur um efsta sætið í riðlinum.

„Þeir geta gefið sýnar opinberu skýringar á því. Það sem við heyrum er að menn séu hræddir við grasið þó að þeir viðurkenni það ekki endilega í okkar heyru," segir Sveinn Elías.

Þá væri ég ekki að fylgjast nógu vel með
„Ég hitti aðalþjálfara KR - sem ég þekki vel - um helgina og spurði hann út í það af hverju hann hefði ekki mætt með sitt sterkasta lið þar sem við værum að fara í úrslitaleik um sigur í riðlinum. Hann vildi meina að hann væri aðeins að gera fimm breytingar á sínu liði frá síðasta leik og að þetta væru leikmenn sem væru með hlutverk hjá honum. Ég sagði að þá væri ég ekki að fylgjast nógu vel með, þekkti bara Aron Þórð og tvo fullvaxta Þórsara sem hafa varla sett fyrir sig að mæta norður og restin væri guttar."

„Það er alltaf verið að tala um að auka vægi Lengjubikarsins, einhver umræða um það og að sigur þar ætti að gefa Evrópusæti eða eitthvað í þá áttina. Ef það væri raunin, þá stórefast ég um að þessi lið hefðu ekki mætt fullmönnuð. En á meðan það er í raun ekkert undir, þá gefa þessi lið KSÍ, mótinu, okkur og öðrum liðum í riðlinum puttann með þessari framkomu," sagði Sveinn Elías en hann segir að Þórsliðið hafi ekki lent í neinum meiðslum vegna undirlagsins í Boganum í vetur.

„Varðandi Bogann og grasið þar þá veit ég að þjálfari Stjörnunnar spáir mikið í undirlaginu og þættirnir hjá Baldri (Sigurðssyni) staðfesta það bara. Við vökvum grasið í Boganum fyrir leikina því við viljum fá hraðan og skemmtilegan bolta. Við höfum ekki lent í neinum meiðslum sem rekja má til grassins í vetur. Ég veit ekki heldur til þess að KA hafi gert það en bæði þessi lið æfa þarna alla daga. Það breytir þó ekki þeirri staðreynd að við viljum nýtt gras á Bogann af því að eins og önnur lið, þá viljum við hafa þetta allt nýtt og úr efstu hillu; það vilja allir."

„Þetta er bara ekki svona einfalt, við þurfum að eiga við yfirvöld í bænum þegar kemur að þessu, vinna með það sem við höfum og reyna að gera gott úr því. Yfirvöld í bænum eru augljóslega ekki að uppfylla þær kröfur sem KR og Stjarnan gera þó við séum að vinna með það sem við höfum í höndum. Mér finnst að á meðan KSÍ gerir engar athugasemdir við vallaraðstæður okkar að þá ættu að vera viðurlög við svona framkomu. Þegar lið tefla vísvitandi fram ólöglegum leikmanni, þá tapa þau 3-0, og með þeim mannskap sem komið var norður í þessa leiki var í raun verið að gefa leikina og við áttum að vinna þá báða miklu stærra."

Ekki að fá alvöru leiki yfir vetrartímann
„Það er bara eitt lið í Bestu deildinni hér fyrir norðan eins og er og tvö Lengjudeildarlið, það er því augljóst að við þurfum að ferðast umtalsvert til þess að mæta öðrum liðum úr þessum deildum. Við viljum því nýta svona leiki til þess að bæta okkur og einnig fyrir okkar stuðningsmenn að fá að sjá bestu lið landsins mæta okkur. Fyrir okkar þjálfara er hann að fara í fótboltaleiki og það sem hann gerði er að hann pakkaði saman tveimur fótboltaleikjum. Við erum sáttir með það en ég get alveg viðurkennt það að ég vildi vinna þessa leiki miklu, miklu stærra," segir Sveinn Elías en hann viðurkennir að þetta sé pirrandi þar sem Þórsarar fái ekki marga alvöru leiki fyrir tímabilið.

„Ég nenni samt ekki að vera að grenja eitthvað yfir þessu þó þetta sé pirrandi, niðurstaðan er sú að við erum mjög líklegir að fara áfram upp úr okkar riðli. Vonandi fáum við bara heimaleik þá, ættum að komast auðveldlega í úrslit ef við fáum enn eitt unglingaliðið til leiks á móti okkur."

Við réðum hann til að gera það
Þórsarar eru að öllum líkindum að fara í undanúrslit í Lengjubikarnum en liðið hefur unnið alla leiki sína á undirbúningstímabilin til þessa. Sigurður Heiðar Höskuldsson er að fara vel af stað með þetta lið.

„Vonandi heldur nýr þjálfari hjá okkur að vinna leiki. Við réðum hann til að gera það. Hann er búinn að sinna því upp á tíu síðan og hefur unnið alla leiki sem hann hefur spilað. Ég spurði hann að því hvort við værum að toppa of snemma og hann svaraði því bara með því hvort ég vildi tapa fótboltaleikjum. Ég átti ekkert svar við því. Það er höndum þjálfarans og liðsins að toppa á réttum tíma. Í minni tíð höfum við ekki náð þeim úrslitum sem við erum að ná núna. Við erum að vinna alla leiki sannfærandi," sagði Sveinn Elías að lokum en það verður fróðlegt að fylgjast með Þórsliðinu í sumar.

Þór mætir Fjölni í Boganum næstkomandi sunnudag í lokaleik sínum í riðlinum í Lengjubikarnum.
Athugasemdir
banner
banner