„Þetta eru vonbrigði. Hvernig við mættum til leiks og hvernig við vorum að spila,” sagði Þorsteinn Halldórsson, vonsvikinn þjálfari Breiðabliks, eftir markalaust jafntefli gegn Selfoss.
Lestu um leikinn: Breiðablik 0 - 0 Selfoss
En hvað fór úrskeiðis?
„Ég veit það ekki. Fyrsta hugboð sem maður fær er að þetta hafi verið vanmat. Við mættum bara með lélegt hugarfar og þess vegna töpuðum við þessum stigum. Við eigum að vinna þetta lið en með svona ömurlegri spilamennsku gerum við það ekki. Þó að við höfum átt öll færi, öll skotin og allt það þá var þetta samt sem áður lélegur leikur.”
Það sást snemma í leiknum að Blikaliðið væri ekki að eiga sinn besta leik og við spurðum Þorstein hvað hann hefði sagt við liðið sitt í hálfleik.
„Ég hafði svosem ekkert stórkostlegt að segja. Bara það að þær þyrftu að hafa fyrir þessu og þær ættu að leggja sig meira fram og láta boltann ganga aðeins betur og vera þolinmóðar en fyrst og fremst fannst mér vanta vinnuframlag.”
„Það er bara næsti leikur. Við eigum að spila næst á móti FH og þá þurfum við bara að gera okkur grein fyrir því að það eru allir andstæðingar í þessari deild verðugir og ef að við lítum eitthvað of stórt á okkur þá drullum við upp á bak.”
Athugasemdir
























