
Bild og Fabrizio Romano greina frá því að RB Leipzig sé búið að ná samkomulagi við belgíska framherjann Lois Openda.
Openda er 23 ára gamall og hefur verið í fantaformi með Lens í franska boltanum. Hann skoraði 21 mark og gaf fjórar stoðsendingar til að hjálpa sínum mönnum að ná óvæntu öðru sæti í deildinni, aðeins einu stigi eftir stórveldi Paris Saint-Germain sem tryggði sér enn einn Frakklandsmeistaratitilinn.
Openda er gríðarlega eftirsóttur af stærstu liðum ítalska boltans en hefur einnig verið orðaður við ýmis úrvalsdeildarfélög og félög í Þýskalandi.
Openda er búinn að samþykkja fimm ára samning við Leipzig en þýska félagið á eftir að ná samkomulagi við Lens um kaupverð.
Openda á fjögur ár eftir af samningi sínum við Lens og óljóst er hvort það sé riftunarákvæði í samningi hans við franska félagið.