Man Utd reynir við Branthwaite - Slot hefur áhuga á Watkins - Sesko efstur á blaði Arsenal
   sun 06. október 2013 10:00
Tómas Joð Þorsteinsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Svarthvíta sumarið
Tómas Joð Þorsteinsson
Tómas Joð Þorsteinsson
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
Svavar Már Jónsson, stuðningsmaður #1.
Svavar Már Jónsson, stuðningsmaður #1.
Mynd: Netið
Davíð Þór Ásbjörnsson fór til USA á miðju sumri.
Davíð Þór Ásbjörnsson fór til USA á miðju sumri.
Mynd: Netið
Mynd: Fótbolti.net - Ingunn Hallgrímsdóttir
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
Næstu daga munu leikmenn liða í Pepsi-deildinni gera upp sumarið með því að koma með pistil hér á Fótbolta.net. Í dag er komið að Fylkismönnum en Tómas Joð Þorsteinsson gerir upp sumarið í Árbænujm.Þar með lauk þessu fallega sumri, ef sumar má í raun og veru kalla. Tímabilið var rosalega tvískipt fyrir okkur Árbæinga, uppskeran frá fyrri umferðinni var heil 4 stig, og enginn einasti sigurleikur... Seinni umferðin skilaði hinsvegar 5.5 sinnum fleiri stigum, sem samkvæmt nýjustu útreikningum gerir 22 stykki. Umtalsvert betri árangur, vægt til orða tekið, þetta skilaði sér í töluvert skemmtilegri stemningu innan sem utan vallar, enda þekkja flestir sem hafa á einhverjum tímapunkti komið nálægt fótbolta þessa sigurtilfinningu, sjálfstraust og léttara innan klefans er ástand sem allir sækjast í, og að upplifa þennan viðsnúning frá miðbiki móts var meiriháttar. Eftir enn eitt tapið í áttundu eða níundu umferð sagði höfðinginn Sverrir Garðarsson eftirfarandi „Strákar, það er fátt skemmtilegra en að koma til baka þegar allir hafa afskrifað mann, notfærum okkur hungrið að sækjast í þá tilfinningu“ og það var vissulega gott að ná að koma svona til baka, en hinsvegar leiðinlegt að hafa málað okkur sjálfir útí horn með dapurri frammistöðu í fyrri umferðinni.

Hápunktar sumarsins voru m.a fyrsti kærkomni sigurinn gegn Val í 12. Umferð, á þeim tímapunkti var Andrés Már kominn í kjörþyngd og laus við sín offituvandamál skv Hjörvari, Agnar Bragi steig aftur á völlinn eftir að hafa óttast við að verða fyrsti knattspyrnumaður sögunnar sem telur að ferillinn væri í hættu vegna hælsæris, Svíinn Emil Berger bættist við hópinn og kom með nauðsynleg gæði inná miðsvæðið, ásamt því að spila alla leikina með í vörinni (sem er víst basic í Svíþjóð skv honum sjálfum), Börkurinn mætti aftur með sitt Noregs sjálfstraust og eldmóð, „Den Islandske krigmidtbanespiller“ eins og hann var kallaður úti var lentur aftur heim, og fyrir ykkur sem sváfu í dönskutíma í denn þá þýðiretta íslenski stríðsmiðjumaðurinn. Hann var svo sannarlega kominn tilað berja menn áfram, efla leikgleðina, bæta stemninguna í klefanum og jók sjálfstraustið, sem var komið lengst niður fyrir frostmark, hjá leikmönnunum í kringum sig.

Aðrir merkilegir sigrar voru 2-1 útisigurinn gegn Stjörnunni, þar sem Andrés Már skoraði eitt af mörkum sumarsins og Finnur Ólafs, nýja vítaskyttan sem var á yfirvinnukaupi við slíkt í seinni umferðinni, stóð sína plikt. Svo var 4-1 útisigur á móti Breiðablik, þar sem Gústi Breiðdal setti tvö með hægri, Bragi skoraði skallamark og þakkaði öllum sjúkraþjálförum, læknum og stoðtækjaframleiðendum landsins fyrir andlegan stuðning gegnum árin, svo skoraði rakarasonurinn og Selfoss-stoltið Viðar Örn sitt tíunda mark í deildinni. Mörkin hjá Viðari var hægt að treysta á allt tímabilið, sama hvernig gekk hjá öllu liðinu, þá var alltaf solid að stóla á drenginn að skila sínu... Ég vil samt meina að það sé nokkuð auðvelt að skora 13 mörk í deildinni miðað við stuðninginn sem drengurinn hafði utanvallar frá sínum fjölskyldumeðlimum.

Annar hápunktur var heimferðin eftir leikinn gegn Þór á Akureyri, þegar við settumst uppí rútu og menn fóru að gera sig líklega í snjallsímana og iPodana, þá skipaði Sverrir Garðars, (Géé-Maðurinn) öllum að leggja þessi helvítis tól frá sér og spjalla saman, út frá þessari pælingu fóru menn með ólíka bakgrunna hjá öðrum liðum að skiptast á reynslu/bransasögum og var vel hlegið mestalla leiðina heim.

Á þessu tímabili var ansi mikill fjölda leikmanna sem klæddust appelsínugulu treyjunni, samtals 30 mismunandi, og til samanburðar var meðalfjöldi leikmanna sem spiluðu með hinum ellefu liðum í deildinni 23,7. Miklar hrókeringar hjá okkur í Árbænum, á miðju tímabili voru nokkrir leikmenn látnir fara og nýjir fengnir í staðinn, og svo næstu leikina var alltaf kveðjuleikur fyrir Kanamellurnar Andra Þór, HE-MAN og Odd Inga.
Uppskeran að loknu móti varð 7. sæti, ágætis árangur ef horft er til gjaldþrotsins sem var í gangi fyrri hluta móts en á heildina litið setjum við Árbæingar markið miklu hærra og ef maður lítur yfir leikmannahópinn hefði liðið klárlega getað verið ofar í töflunni, því miður voru bara of fáir leikir þarsem okkur tókst að stillupp okkar sterkasta liði. En hvaðumþað, enn einu stórkostlegu knattspyrnusumri er nú lokið og vil ég þakka öllum sem stóðu að þessu fyrir samveruna og senda hamingjuóskir á KR-inga og Frammara fyrir titla sumarsins.

Ég vil einnig nýta tækifærið og þakka sérstaklega þeim sem vinna frábær störf bakvið tjöldin hjá Fylki, myndatökumaðurinn síungi Einar Ásgeirsson, umsjónarmenn laugardagsmorgunverðarins Ólafur Hafsteinsson & Jóhann Sævar Kjartansson, Sveinbjörn ,,fagaðili“ Sveinbjörns, Guðmundur Óli, stuðningsmaður #1 Svavar Már Jónsson sem fékk þessa fallegu MUFC treyju frá leikmönnum sem verðlaun fyrir stuðning sinn síðustu áratugi, og margir fleiri innan klúbbsins, þvílík eðalmenni sem hjálpa til að gera félagið að skemmtilegu og þægilegu umhverfi.

Tómas J. Þorsteinsson

P.S Andrés Már bað mig sérstaklega að minnast á markið sem hann skoraði í Krikanum, með vinstri í Krikanum, þegar hann settann viðstöðulaust í fjær í Krikanum.

Sjá einnig:
Skítugur sokkur - Keflavík
Sjálfsmarkaregn - Fram
Eftirminnilegt sumar á enda - Víkingur Ó.
Falllegt tímabil - ÍA
Athugasemdir
banner
banner
banner