Manchester City hefur ekki unnið í síðustu fjórum deildarleikjum liðsins og nú er það undir Pep Guardiola, stjóra félagsins, að finna lausn á vandamálinu.
Englands, bikar og Evrópumeistararnir hafa gert þrjú jafntefli og tapað einum í síðustu fjórum leikjum.
Liðið er nú komið niður í 4. sæti deildarinnar eftir tap kvöldsins, en það er alveg óhætt að segja það að þó sigur Aston Villa hafi verið naumur þá voru yfirburðirnir samt miklir.
„Aston Villa var betra liðið. Þeir spiluðu frábæran leik og við áttum í miklum erfiðleikum með okkar vinnslu og að vera grimmari á köflum, en já betra liðið vann.“
„Það var þrá í okkar spili en Villa spilaði betur. Við vorum í basli, sérstaklega í fyrri hálfleik, en seinni var allt öðruvísi. Okkur tókst ekki að finna gæðin í sendingum og hreyfingum á síðasta þriðjungi vallarins. Þeir eru mjög sterkir og náðu að búa til góðan vegg með pressunni. Sú staðreynd að við höfum ekki unnið í síðustu leikjum segir okkur bara hvað gæðin í ensku úrvalsdeildinni eru mikil og hvað öll liðin eru stórkostleg.“
„Á þessum árum höfum við fundið leiðir til að vinna leiki en við vorum í basli og nú þurfum við að finna leið. Það er í mínum verkahring að finna lausn. Dýnamíkin breytist með því að vinna leiki, en þegar eitthvað lið er betra þá verður þú að viðurkenna það,“ sagði Guardiola í lokin.
Athugasemdir