Chiesa í skiptum fyrir Greenwood? - David til Chelsea - Buðu Palace að fá Olise aftur á láni - Slot skoðar Minteh - Varane til Miami
   þri 07. mars 2023 12:36
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Heimir um Úlf Ágúst: Eina sem ég get sett út á er tímapunkturinn
Úlfur Ágúst í leik með FH í vetur.
Úlfur Ágúst í leik með FH í vetur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Vuk Óskar Dimitrijevic.
Vuk Óskar Dimitrijevic.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Heimir Guðjónsson og Sigurvin Ólafsson, þjálfarar FH.
Heimir Guðjónsson og Sigurvin Ólafsson, þjálfarar FH.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
FH stefnir auðvitað á að gera betur í sumar en síðasta sumar. Þetta sigursæla félag tókst að halda sér uppi á markatölu eftir að hafa verið í mikilli fallbaráttu allt sumarið.

Heimir Guðjónsson er mættur aftur í Kaplakrika en hann er goðsögn hjá Fimleikafélaginu, bæði sem leikmaður og sem þjálfari. Heimir var í viðtali í útvarpsþættinum Fótbolta.net þar sem hann var meðal annars spurður út í efnilega leikmenn liðsins sem ætlað er að taka meiri ábyrgð í liðinu á þessu tímabili.

Úlfur Ágúst Björnsson er einn af þessum ungu leikmönnum. Úlfur, sem er 19 ára, hefur leikið vel með FH á undirbúningstímabilinu. Hann blómstraði á láni hjá Njarðvík fyrri hluta síðasta tímabils og skoraði svo fjögur mörk með FH seinni hlutann.

Það komu fréttir á dögunum um að hann væri á leið í Duke háskólann í Bandaríkjunum. Ef hann fer í Duke er líklegast að hann missi af endasprettinum í Bestu deildinni og missi í kjölfarið úr hluta af tímabilunum á næstu árum.

Hvernig var fyrir Heimi að heyra að þessi efnilegi leikmaður sé á leið til Bandaríkjanna og muni þá missa af mikilvægum hluta tímabilsins næstu ár?

„Úlfur hefur staðið sig vel á undirbúningstímabilinu. Hann nær held ég 17 leikjum áður en hann fer út í skóla. Ég hef alltaf sagt það öll þessi ár sem ég hef verið að þjálfa, að ég hvet menn til mennta sig. Eina sem ég get sett út á er tímapunkturinn. Úlfur hefur mikla hæfileika og getur orðið mjög öflugur senter. Mitt mat er að hann hefði átt að láta reyna á þetta í sumar og sjá hvað kemur út úr þessu, og taka svo kannski slaginn að fara út í skóla á næsta ári."

„En þetta er niðurstaðan og ég virði hana. Svo höldum við áfram," sagði Heimir en Úlfur er klárlega með hæfileika til að springa út í sumar. Kjartan Henry Finnbogason að berjast um framherjastöðuna við Úlf, og svo er Steven Lennon þarna líka.

„Kjartan Henry er andandi í hálsmálið á honum. Hann hefur verið mjög flottur og verið gríðarlega duglegur á æfingasvæðinu. Það sem ég er ánægðastur með hjá honum er að hann er að láta gott af sér leiða til yngri leikmanna. Það er jákvætt því hann hefur gríðarlega reynslu og er búinn að spila á háu stigi."

Vuk komið á óvart
Vuk Oskar Dimitrijevic kom til FH frá Leikni árið 2021 og hefur kannski ekki alveg náð að slá í gegn Hafnarfirðinum en Heimir talaði á mjög jákvæðum nótum um Vuk í þættinum.

„Ég viðurkenni að ég er sérstaklega ánægður með Vuk. Hann hefur komið mér töluvert á óvart," sagði Heimir.

„Menn voru búnir að segja við mig eitt og annað. Svo kem ég inn og fer að þjálfa hann, og þá kemur í ljós að það eru gríðarlegir hæfileikar til staðar. Við höfum reynt að vinna með þá. Ég held að hann eigi eftir að nýtast vel í sumar. Hann þarf bara að halda áfram að vinna vel í sínum málum. Hann hefur eitt og annað sem maður vill sjá frá góðum kantmanni."

FH hefur verið að leika vel á undirbúningstímabilinu en Heimir segir að það þýði ekki endilega mikið þegar komið verði í alvöruna í sumar. Menn verði að vera vel tilbúnir þá. Hægt er að hlusta á alla umræðuna úr þættinum hér fyrir neðan.
Útvarpsþátturinn - Horft til Bosníu og Heimir Guðjóns gestur
Athugasemdir
banner
banner