sun 07. ágúst 2022 19:14
Brynjar Ingi Erluson
FH ekki skorað í síðustu fimm deildarleikjum og aðeins gert tvö mörk frá því Eiður tók við
Eiður Smári Guðjohnsen
Eiður Smári Guðjohnsen
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
FH-ingar eru að ganga í gegnum mikla krísu þessa dagana en liðið tapaði níunda deildarleik sínum á tímabilinu og eru sem stendur í harðri fallbaráttu. Liðið tapaði fyrir KA í kvöld, 3-0, og er þetta fimmti leikurinn í röð sem liðið nær ekki að skora.

Lestu um leikinn: FH 0 -  3 KA

Eiður Smári Guðjohnsen tók við FH af Ólafi Jóhannessyni eftir að liðið gerði 2-2 jafntefli við Leikni á Kaplakrikavelli um miðjan júní en þá var liðið í 9. sæti með 9 stig.

Eftir að Eiður tók við hefur liðið aðeins skorað tvö deildarmörk í sjö deildarleikjum.

Einu mörkin komu í 1-1 jafnteflum gegn ÍA og Stjörnunni en liðið hefur nú farið í gegnum fimm leiki án þess að skora mark.

Eiður hefur talað um það í viðtölum að það vanti sannfæringu í liðið og að boltinn hreinlega vilji ekki inn. Liðið hefur alveg skapað sér færi og komið sér í ágætis stöður en hlutirnir eru bara ekki að ganga upp.

„Miðað við frammistöðuna og það sem við sjáum á æfingasvæðinu þá hef ég bara engar áhyggjur af neinu því að ég held að um leið og við troðum inn einu marki þá munu koma hellingur af þeim þannig ég hef engar áhyggjur af því. Hópurinn er þunnur en við erum bara að díla við það þannig það er ekki yfir neinu að kvarta nema við þurfum að vera aðeins klókari," sagði Eiður við Fótbolta.net á dögunum.

FH-ingar eru nú í 10. sæti með 11 stig en það er möguleiki á því að liðið verði í fallsæti eftir þessa umferð ef Leiknismönnum tekst að vinna Keflavík á morgun.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner