Aston Villa reynir við Cunha - Barcelona getur ekki fengið Rashford - Duran til Sádi-Arabíu?
   lau 07. desember 2024 10:00
Brynjar Ingi Erluson
Ronaldo hafði betur gegn Messi - Kom að 50 mörkum á árinu
Cristiano Ronaldo
Cristiano Ronaldo
Mynd: Getty Images
Lionel Messi vann fleiri titla en Ronaldo
Lionel Messi vann fleiri titla en Ronaldo
Mynd: Getty Images
Portúgalski sóknarmaðurinn Cristiano Ronaldo kom að fimmtíu mörkum á árinu sem er að líða en þetta er í þrettánda sinn sem hann nær þeim áfanga.

Ronaldo, sem er 39 ára gamall, skoraði 43 mörk og lagði upp sjö í 51 leik á árinu.

Með Al Nassr gerði hann 36 mörk og gaf fimm stoðsendingar, en með Portúgal skoraði hann 7 mörk og gaf tvær stoðsendingar.

Ronaldo setur markmiðið á að komast í þúsund mörk áður en ferlinum lýkur en hann skoraði í gær 916. mark sitt á ferlinum og virðist allt eftir plani.

Hans helsti keppinautur, Lionel Messi, kom að 47 mörkum með Inter Miami og argentínska landsliðinu. Hann varð deildarmeistari í Bandaríkjunum og vann þá Copa America með argentínska landsliðinu í sumar.

Tölfræðilega séð átti Ronaldo betra ár en titlarnir telja líka og þar hafði Messi svo sannarlega betur, en Ronaldo vann ekki einn titil á árinu.

Messi var valinn MVP (mikilvægasti maður MLS-deildarinnar) í ár og þá vann Ronaldo gullskóinn í Sádi-Arabíu. Báðir eru tilnefndir í lið ársins hjá leikmannasamtökunum FIFPRO. Liðið verður tilkynnt á mánudag en það verður að teljast ólíklegt að þeir verði í því.

Þá var Argentínumaðurinn einn af ellefu sem fengu tilnefningu sem besti leikmaður ársins hjá FIFA, en sú tilnefning hefur fengið mikla gagnrýni frá spekingum um allan heim, enda margir sem telja hann ekki eiga neitt erindi þangað.

Lautaro Martínez, sem var magnaður með Inter er liðið varð ítalskur deildarmeistari á síðustu leiktíð og markahæstur á Copa America í sumar, var ekki tilnefndur.


Athugasemdir
banner
banner