Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   þri 08. júní 2021 23:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Erum komin langt á eftir - Bjarki býður fram aðstoð sína
Heimir Hallgrímsson og Bjarki Már Ólafsson.
Heimir Hallgrímsson og Bjarki Már Ólafsson.
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
Freyr Alexandersson, fyrrum aðstoðarlandsliðsþjálfari.
Freyr Alexandersson, fyrrum aðstoðarlandsliðsþjálfari.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Bjarki Már Ólafsson fór með Heimi Hallgrímssyni til Katar 2018 þegar Heimir var ráðinn þjálfari Al Arabi.

Bjarki Már hafði starfað hjá Gróttu sem yfirþjálfari yngri flokka og aðstoðarþjálfari í meistaraflokki. Hann byrjaði ungur þjálfun en þurfti að leggja skóna á hilluna 19 ára vegna hjartavandamála.

Bjarki hefur starfað sem greinandi hjá Al Arabi ásamt því að vera í þjálfarateyminu. Hann er kominn langt í þeim fræðum og vill leggja sitt af mörkum í að styrkja íslenska knattspyrnu þegar kemur að því.

„Hef orðið var við umfjöllun um skort á sérhæfingu innan íslenskrar knattspyrnu í greiningum á leikfræði (match analysis), leikmönnum (recruitment analysis) og gögnum (data analysis). Hún á fullkomlega rétt á sér. Við eigum sárafáa, ef nokkra, einstaklinga sem sérhæfa sig og starfa á þessum sviðum geirans á Íslandi, en á sama tíma eru þetta veigamiklar stöður hjá flestum félögum erlendis," segir Bjarki sem býður fram aðstoð sína til einstaklinga sem vilja kafa dýpra í þessi fræði.

Freyr Alexandersson, sem starfaði með Bjarka hjá Al Arabi, var gestur í útvarpsþættinum Fótbolta.net síðasta laugardag þar sem hann var spurður út í þessi mál.

„Þetta er hárrétt hjá honum og eitt af stórum vandamálunum í íslenskum fótbolta. Ég hlustaði mikið á umræðuna fyrir ársþing þar sem mikið var talað um að fjölga leikjum til að breyta íslenskum fótbolta. Það er kannski partur af því en við verðum ekki betri á að fjölga leikjum um fjóra. Þið áttið ykkur á því. Það gerist ekkert stórkostlegt við það... tekjurnar eru risastór partur af því að við verðum betri. Hvernig sköpum við frekari tekjur? Við þurfum að kunna að vinna úr gögnunum, og við þurfum að vera þátttakendur á alþjóðlegum markaði. Við þurfum að kunna að lesa úr gögnunum og koma þeim frá á okkur, bæði í þróun hjá okkur sem þjálfarar og leikmenn, en líka til þess að geta búið til söluvörur."

„Það er tekjulind félaganna. Þau sem stjórna félögunum átta sig á því að þetta hark að selja auglýsingar á vellina og fá einhverja 100 þúsund kalla í styrk hér og þar, það heldur okkur bara á floti. Ef við ætlum að fara eitthvað lengra og taka þátt í alþjóðlegum fótbolta þá verðum við að taka þátt í þessari bylgju."

„Ég er búinn að tala um þetta lengi inn í knattspyrnusambandi að við verðum að fara að mennta fólk í þessum fræðum. Það þurfa ekki að vera bestu leiðtogar landsins, bestu knattspyrnuþjálfararnir... þetta þurfa að vera áhugamenn um knattspyrnu sem eru flinkir að vinna með gögn og geta átt góð samskipti við þjálfarateymin. Við þurfum að mennta þetta fólk og hefðum átt að byrja fyrir fimm árum. Við erum komin langt á eftir."

„Bjarki kastar sjálfum sér fyrir rútuna og býður upp á fræðslustörf. Hann er hérna í fríi með kólumbísku konunni sinni. Ég veit ekki hvað hún segir við því," sagði Freyr léttur.

Tómas Þór Þórðarson spurði hvar ætti að byrja?

„Það þarf að búa til línu í fræðsludeild knattspyrnusambandsins þar sem þú ert ekki að búa til UEFA B-þjálfara, UEFA A-þjálfara, UEFA Pro-þjálfara; þú ert að mennta í grunnfræðum þjálffræðinnar og svo ertu að mennta mann í að vinna með gögn... við verðum að fara að koma þessu á laggirnar ekki seinna en fyrir fimm árum," sagði Freyr.

Hægt er að hlusta á alla þessa áhugaverðu umræðu hér að neðan en þar var Freyr líka spurður að því af hverju það væri ekki búið að kippa þessu í laginn.


Útvarpsþátturinn - Freysi og öll helstu fótboltamálin
Athugasemdir
banner
banner
banner