Stjórnarmenn Manchester United áttu jákvæðan fund með leikmönnum félagsins um portúgalska stjórann Ruben Amorim. ESPN segir frá.
Omar Berrada, framkvæmdastjóri United og Jason Wilcox, yfirmaður fótboltamála hjá félaginu, funduðu með leiðtogum United-liðsins um Amorim.
Fundurinn var ekki sérstaklega haldinn til þess að ræða framtíð Amorim heldur meira til þess fá endurgjöf varðandi stemninguna í klefanum.
ESPN segir viðbrögðin jákvæð og að stjórnin sé fullviss um að Amorim nýtur stuðnings leikmanna og hafi ekki misst klefann.
Mason Mount og Matthijs De Ligt, leikmenn United, hafa báðir lýst opinberlega yfir stuðningi við Amorim og segja að ekki sé hægt að kenna honum um gengi liðsins. Leikmenn þurfa að standa sig á vellinum og nú sé unnið markvisst að því að bæta frammistöðuna.
United vann mikilvægan 2-0 sigur á Sunderland um helgina, en talað var um þann leik sem mikilvægasta leik Amorim í stjóratíð hans hjá United, en enskir fjölmiðlar sögðu fyrir leikinn að United myndi alvarlega íhuga að reka hann ef liðinu hefði ekki tekist að vinna nýliðana.
Athugasemdir