lau 08. desember 2018 17:11
Útvarpsþátturinn Fótbolti.net
Kiddi Jak vongóður um að VAR verði í íslensku deildinni
Kristinn Jakobsson.
Kristinn Jakobsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Möguleiki er á því að VAR myndbandsdómgæsla verði tekin upp í Pepsi-deildinni á Íslandi. Þetta sagði Kristinn Jakobsson, formaður dómaranefndar KSÍ, í útvarpsþættinum Fótbolti.net á X977.

„Þegar þessi tækni var kynnt á sínum tíma þá voru menn á því að þetta væri ekki spurning hvort heldur hvenær. Aðalvinnan undanfarin ár hefur verið að framkvæma þessa hluti þannig að þeir séu ekki að tefja leikinn eða hafa áhrif á hann. Það hefur tekist prýðilega," segir Kristinn.

Hann segir að hjá FIFA sé kerfi í vinnslu sem hægt er að nota hjá minni þjóðum.

„Eitt aðalatriðið í þessu er kostnaðarhliðin. Þetta er tækni sem þarfnast sjónvarpsvéla og fleira. Í sumum löndum er hreinlega ekki hægt að nota þetta en það hefur verið að vinna að nýju kerfi sem verður væntanlega kynnt eftir áramótin. Þar þarf einungis fjórar myndavélar á leik."

„Við erum vongóðir með það að geta nýtt þetta í komandi framtíð hérna heima."

„Til að nota þetta löglega þarftu að vera með ákveðið margar myndavélar og kerfi í gangi. Það er ekki gefinn neinn sveigjanleiki á því. Auðvitað viljum við nýta svona kerfi ef það er mögulegt, ég tala nú ekki um ef við fáum styrk til þess frá FIFA eða UEFA. Það yrði frábær viðbót fyrir dómgæsluna," segir Kristinn Jakobsson.

Til að þetta yrði framkvæmanlegt þyrfti KSÍ að vinna þetta í samvinnu við fjölmiðlafyrirtækið Sýn sem á útsendingaréttinn á Pepsi-deildinni. Ekki er vitað hvenær mögulegt væri að taka upp VAR í íslenska boltanum en þróunin hefur verið mjög hröð í þessum málum.

Smelltu hér til að hlusta á viðtalið við Kristin
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner